149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og innlegg hans í umræðuna, sem ég tel mjög mikilvægt. Það vekur óneitanlega athygli að í umræðu um mál sem stendur fram undir morgun skuli Miðflokkurinn einn hafa áhyggjur af málinu. Ég segi eins og hv. þingmaður: Ég skora á þingmenn annarra stjórnmálaflokka að koma inn í umræðuna. Ef þetta er svona gott mál, hvers vegna koma þeir þá ekki og rökstyðja það? Þeir hljóta að geta gert það.

Mér finnst athyglisvert að stjórnmálaflokkur eins og Samfylkingin, sem hefur gefið sig út fyrir að vera sérstaklega vinsamleg verkafólki í landinu, sem er ágætismál, skuli ekki hafa áhyggjur af því hvað gerist þegar þessi upphæð, 84 milljarðar kr., fer úr landi, þeir kaupa gjaldeyri og hann er sem sagt farinn úr landinu. Það hefur náttúrlega gífurleg áhrif og veldur þrýstingi á krónuna sem mun þýða, eins og ég hef rakið, að verðbólgan hækkar, lán landsmanna hækka ofan í alla þá efnahagslegu óvissu sem nú ríkir, kjaraviðræður o.s.frv. Þetta eru fullkomlega réttmætar spurningar og maður spyr: Hafa t.d. Samfylkingin og Viðreisn engar áhyggjur af þessu máli?

Þetta er rétt að nefna vegna þess að ég hef ekki heyrt nokkurn einasta þingmann þessara stjórnmálaflokka, og það á reyndar við um fleiri stjórnmálaflokka, koma hingað upp og hafa áhyggjur af málinu. Þvert á móti virðast þau í þögn sinni samþykkja það eins og ekkert sé og síðan á að horfast í augu við raunveruleikann þegar frumvarpið er orðið að lögum.