149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:27]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að fara nokkrum orðum um það sem ég tel vera innsta kjarna þessa máls. Menn hafa spurt: Af hverju eru menn að leggja það á sig að fjalla um þetta mál með ítarlegum hætti? Það stendur þannig á, herra forseti, að það eru 84 milljarðar kr., eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins, sem eru eftirstöðvar af þessum svokölluðu aflandskrónum.

Aflandskrónur voru viðfangsefni í uppgjörinu eftir hrunið. Ég hef hér meðferðis í ræðustól rit sem gefið var út af ríkisstjórn Íslands og Seðlabanka Íslands og heitir Losun fjármagnshafta. Í þessu riti, sem út kom 2015 og var gefið út af fjármálaráðuneytinu, er því lýst í einstökum atriðum hvernig staðið yrði að nánar tilgreindum þáttum í uppgjörinu eftir hrunið þar sem aflandskrónurnar, eins og þær hafa verið kallaðar, eru einn þátturinn.

Það er mjög veigamikið atriði í þessu riti að fjalla um það að leiðin út úr þessum aflandskrónuvanda eins og hann var skilgreindur fælist í því að fara svokallaða uppboðsleið. Það er mjög rækilega tíundað í þessu riti að lagður hafi verið mjög öflugur og traustur grunnur að því að fara þá leið. Henni var fylgt að meginstefnu og með mjög frambærilegum árangri. Fenginn var sérstakur ráðgjafi, virtur prófessor við Oxford-háskóla, sem áður hafði verið í Englandsbanka og bandaríska seðlabankanum til ráðuneytis í sambærilegum efnum. Hér var vandað til verka og vel staðið að málum.

Sú spurning sem við stöndum frammi fyrir núna, þegar eftir standa 84 milljarðar, sem á tölulegan mælikvarða eru reiknaðir sem 3% af árlegri framleiðslu í landinu — þegar aflandskrónuvandinn var mestur var hann í kringum 15% af árlegri framleiðslu í landinu — er þessi: Af hverju er vikið frá þessari mörkuðu stefnu núna? Af hverju er henni ekki fylgt? Umræður um að sú framkvæmd sem hér var höfð uppi stríddi gegn einhverjum lögfræðilegum velsæmissjónarmiðum eða væri ekki við hæfi gagnvart erlendum skuldbindingum eiga alls ekki við vegna þessa vandaða undirbúnings og vegna þeirrar reynslu sem þarna hefur fengist. Þannig að þetta er kannski ein aðalspurningin í málinu: Af hverju er vikið frá þessari leið?

Þessi leið felur það í sér að þeim aðilum sem voru eigendur þessara eigna var gert að vinna það til, til að geta losað þær út úr landinu, að greiða álag ofan á gjaldeyrinn í slíkum viðskiptum og leiðin til þess var í gegnum uppboðin. Hér erum við þá að tala um umtalsverða fjárhagslega hagsmuni fyrir ríkissjóð, fyrir íslenskan almenning ef því er að skipta. Þetta er innsti kjarni málsins. Hér er sem sagt verið að fjalla um íslenska hagsmuni annars vegar og hins vegar um þá stefnubreytingu sem virðist birtast í þeim áformum sem uppi eru og það er náttúrlega mjög æskilegt að fleiri taki þátt í þessari umræðu.

Ég lýsi mikilli ánægju með að varaformaður Sjálfstæðisflokksins og staðgengill fjármálaráðherra sé mætt til umræðunnar og hlakka til að heyra hennar viðhorf og skýringar við þeim spurningum sem velt er upp. Mér fyndist líka mjög áhugavert að heyra frá hinum stjórnarflokkunum og sömuleiðis væri fróðlegt að heyra frá öðrum flokkum í stjórnarandstöðunni, hv. þingmönnum sem eiga þar sæti.