149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Í andsvari hv. þm. Þorsteins Víglundssonar við hv. þm. Birgi Þórarinsson kom fram að ekki væri þörf á því að halda þessum fjármunum lengur í höftum eða þeim eignum sem um ræðir. Það kann vel að vera rétt að ekki sé þörf á því. En þá spyr maður: Hvað með mat á fjárhagslegri þörf ríkissjóðs þegar við höfum á sama tíma séð þingmenn, jafnvel þingmenn þessa flokks, þingmenn Viðreisnar, leggja til skattahækkanir, hækkun veiðigjalda og ýmsar aðrar hugmyndir til að ná í auknar tekjur fyrir ríkissjóð? Á sama tíma finnst þeim allt í lagi að gefa eftir milljarða, mögulega tugi milljarða, það fer að sjálfsögðu eftir því við hvað er miðað. Finnst hv. þingmanni eðlilegt að tala með þessum hætti, að leggja til einn daginn að auka tekjur en á sama tíma gefa eftir fjármuni sem Íslendingar og stjórnvöld hafa fulla stjórn á í dag, ef fylgt væri eftir þeirri áætlun sem lagt var af stað með í upphafi sem hv. þingmaður hefur farið vandlega yfir?

Hv. þingmaður fjallaði um kjarna málsins, þ.e. þá hagsmuni sem liggja undir, fjárhagslega hagsmuni fyrir íslenska þjóð sem hér er verið að tefla með. Enn og aftur vakna spurningar: Hvers vegna er verið að gefa eftir gagnvart þessum aðilum og gefa þá mögulega eftir milljarða eða tugi milljarða í tekjur? Hvers vegna er verið að því? Er það vegna þess að við þurfum ekki á því að halda? Þá hljótum við auðveldlega að geta fundið fjármuni án þess að hækka skatta, án þess að leita að nýjum tekjum af veiðigjöldum eða öðru. Þá hljótum við að geta fundið fjármuni í vegagerð, í hjúkrunarheimili, til eldri borgara, til öryrkja, í húsnæðismálin. Það vantar ekki hugmyndirnar hjá fólki sem er í þessum þingsal en hefur ekki tekið til máls þegar sækja þarf meira fé til almennings eða fyrirtækja.