149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:42]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við erum kannski komin langleiðina með að vinna okkur efnahagslega út úr hruninu. Það plagg sem ég hafði meðferðis og hef vitnað til, einnig í umræðunum í gær, ber með sér mjög vönduð vinnubrögð og að þar hafi verið fengnir til starfa mjög færir sérfræðingar.

Þarna naut líka atbeina Seðlabankans og sjálfsagt fleiri opinberra stofnana og hefur það að meginstefnu til gengið eftir. Við erum að tala um lokahnykkinn í aflandskrónumálinu og viljum leitast við að fá fram svör við því af hverju horfið er frá markaðri leið, eins og er svo vandlega útskýrt í þessu ágæta skjali.

Þó að í hinu breiða efnahagslega tilliti sé landið langt komið með að rísa eftir hrunið eru víða sár í íslensku samfélagi. Ég held að það sé rétt að við höfum það í huga. Hrunið hafði í för með sér mikið tjón fyrir heimili og atvinnufyrirtæki landsmanna. Sumt af því sem gert var hér af hálfu stjórnvalda á fyrstu árunum eftir hrun var kannski ekki að öllu leyti til þess fallið að milda áhrifin af þeim áföllum.