149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað vitum við að margt af því sem kemur frá samfylkingarflokkunum er til heimabrúks, er til að komast í kastljósið, er til að setja út í umræðuna. Við vitum að það gengur í ákveðinn hóp að tala alltaf um að sækja fé til útgerðarinnar eða til atvinnulífsins, en á sama tíma eru þeir aðilar, og víla það ekki fyrir sér, að gefa eftir eða í það minnsta láta ekki á það reyna hvort hægt væri að ná í, eins og hv. þingmaður benti á samkvæmt útreikningum sínum, rúmlega 13 milljarða eða 23 milljarða, eitthvað þar á milli.

Hvers vegna er þetta með þessum hætti? Maður veltir fyrir sér hvað Samfylkingin gæti t.d. gert ef þeir peningar kæmu inn miðað við þann lúðrablástur sem heyrist stundum á þeim bæ? Það væri t.d. hægt að hrista aðeins upp í þessari blessaðri borgarstjórn, reyna að koma þar einhverju í gagnið í samvinnu við ríkið og byggja eitthvað af íbúðum fyrir þessa peninga. Hér ræddum við aðeins í nótt, fyrrinótt, hvort það gætu verið 5.000–8.000 íbúðir. Við vitum það ekki að sjálfsögðu. Þetta er hins vegar alveg verðugt umræðuefni.