149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú veit ég ekki hvort hv. þingmaður er á mælendaskrá en ég legg til að hann setji sig á mælendaskrá ef hann er þar ekki. Ég ætla að gera honum þann óleik að spyrja hann hvað hann telji að geri það að verkum að þeir sem vilja fá þetta mál í gegn komi ekki hingað í þennan ræðustól og rökstyðji mál sitt.

Hér hafa verið haldnar tvær ræður, ein þegar mælt var fyrir málinu og önnur þegar formaður nefndarinnar flutti álit hennar. Síðan hafa líklega tveir aðilar komið í andsvar en það er öll umfjöllunin sem verið hefur um málið hér af hálfu þeirra sem vilja reyna að telja okkur trú um að það sé sniðugt að klára þetta með þessum hætti. Á sama tíma fáum við engin svör við því hvað réttlæti það að fara þessa leið, að gefa eftir gagnvart þessum aðilum, að gefa þeim meira svigrúm en öðrum, að verðlauna þá sem þráast við að fara að þeim reglum sem settar hafa verið.