149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða ræðu. Mig langaði aðeins að koma inn á eitt sem er á bls. 5 í greinargerðinni. Þar segir:

„Þannig eru markmið fjárstreymistækisins á innflæði fjármagns tryggð og að aflandskrónueignir verði áfram á aflandsmarkaði og komi hingað til lands í formi nýs innstreymis erlends gjaldeyris ef aflandskrónueigandi kýs að fjárfesta hér á landi.“

Þetta langar mig að staldra við, þ.e. „kýs að fjárfesta hér á landi“.

Í fyrsta lagi vil ég segja að það vantar allar upplýsingar um á hvaða grundvelli þetta er sett fram. Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna reynslu hans sem fyrrverandi utanríkisráðherra þar sem hann var mjög staðfastur og sinnti því starfi af mikilli prýði svo eftir var tekið: Hver er tilfinning hans fyrir því að áhugi sé fyrir því hjá þessum aðilum að fjárfesta hér á landi?