149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við getum engu svarað um hvað þessir aðilar eru áfjáðir í að fjárfesta á Íslandi. Allt eru þetta í raun getgátur og vangaveltur um hvað þeir geta hugsað sér að gera. Í það minnsta hafa þær upplýsingar ekki verið lagðar hér fram. Ég kynntist því hins vegar á sínum tíma að áhugi var víða um heim á að fjárfesta á Íslandi.

Það sem menn horfðu til í því efni var að sjálfsögðu hvernig okkur gekk og hefur gengið að endurheimta traust erlendis með því að fylgja þeirri aðferðafræði sem við lögðum af stað með. Bara það eitt að standa í lappirnar í Icesave-samningunum og að vera með trúverðuga, góða áætlun varðandi endurreisn fjármálakerfisins skipti þessa aðila mjög miklu máli.

Það vill svo vel til að hér í salnum höfum við mjög góðan ráðherra sem þekkir þessi mál mjög vel, þ.e. fjárfestingar og áhuga erlendra fjárfesta á Íslandi. Hann er staðgengill fjármála- og efnahagsráðherra og það er aldrei að vita nema við fáum einhverjar góðar upplýsingar eða ræðu frá hæstv. ráðherra um þetta mál.