149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:53]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Í framhaldi af því dettur mér í hug að mér finnst ég ekki hafa orðið var við það að neinn hafi stigið hér á stokk og sagt að þær upphæðir sem við höfum talið hér fram, þ.e. 13–23 milljarðar, séu út af fyrir sig rangar og tilhæfulausar. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef það er rangt hjá mér. Ég velti þess vegna fyrir mér hvers vegna mönnum liggur svona reiðinnar býsn á að ganga frá þessu máli að þeir eru reiðubúnir að samþykkja þetta mál með engum fyrirvara þótt þeir viti að það er verið að afsala ríkissjóði mjög verulegum tekjum sem, eins og hv. þingmaður bendir á, væri hægt að nota mjög víða í fjársveltu kerfi.

Ég spyr hv. þingmann af hverju hann telji að menn komi ekki hér (Forseti hringir.) og vefengi þessar tölur ef þær eru rangar.