149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:09]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp fjármálaráðherra um meðferð krónueigna sem hafa verið háðar sérstökum takmörkunum, þ.e. aflandskrónulosun. Efnislega gengur frumvarpið út á að eigendum aflandskróna verði heimilað að taka fjármagn sitt út af reikningum sem áður voru háðir sérstökum takmörkunum og jafnframt að kaupa fyrir þessar krónur erlendan gjaldeyri. Hér er um að ræða eitt af lokaskrefunum, eins og segir í frumvarpinu, í að afnema fjármagnshöft sem vörðuðu Ísland og íslenskt efnahagslíf á meðan það var að rísa á árunum eftir hrun.

Frú forseti. Hver er forsaga þessa máls? Hún er sú að stjórnvöld gerðu ákveðna áætlun þann 8. júní 2015 um losun hafta sem gekk í aðalatriðum út á að eigendum krónueigna sem hér sátu fastir inni með eignir sínar í höftum var boðið að losa þær út með greiðslu álags, þ.e. að þeir tækju þátt í endurreisn íslensks efnahagslífs eftir hrun.

Frú forseti. Ef þessir aðilar hefðu séð minnsta vott um hik á íslenskum stjórnvöldum hefðu þeir auðvitað ekki stokkið á þennan vagn, auðvitað í þeirri von að síðar yrði þeim veglega umbunað. Hins vegar gekk þessi áætlun vel. Hún var faglega vel undirbúin og með þessu tókst að losa miklar eignir þessara aðila úr höftunum. Þeir greiddu til þjóðarbúsins álag sem fór til uppbyggingar innviða eins og t.d. heilbrigðiskerfisins. En einhverjir krónueigendur ákváðu hins vegar að þrjóskast við, kannski í þeirri von að íslensk stjórnvöld gæfu eftir — sem kemur nú á daginn, frú forseti. Stjórnvöld eru með þeim aðgerðum sem við ræðum hér að falla frá þeim áformum sem mörkuð voru um losun haftanna.

Frú forseti. Hvers vegna þetta undanhald? Hvers vegna? Það litla sem hefur heyrst frá öðrum stjórnmálaöflum hér á Alþingi í umræðum um þetta mál er helst það að erlend staða þjóðarbúsins sé svo góð og að ekki sé nein vá fyrir dyrum íslensks efnahagslífs. Það voru rökin sem við heyrðum hér áðan, við stæðum svo vel, þjóðarbúið stæði svo vel, og engin vá væri sjáanleg. Þetta eru ástæðurnar. Þetta eru ástæðurnar fyrir eftirgjöfinni.

Eru það orðin rök í málinu að leggja til hliðar áætlun sem skilaði og gat áfram skilað þjóðarbúinu sanngjörnu álagi þegar eigendur krónueigna hygðust losa sínar íslensku krónur úr höftum? Eru það rökin að það gangi svo vel hérna, þjóðarbúið standi svo vel og engin vá sjáanleg? Það á sem sagt að gefa eftir möguleikann á sanngjörnu álagi bara vegna þess að hér er svo mikill uppgangur. Með öðrum orðum: Við eigum svo mikla peninga. Hvað með byggingu hjúkrunarheimila? Vantar ekki aur þar? Það vantar aur alls staðar. Nei, við eigum svo mikla peninga að við skulum bara gefa þetta eftir. Við skulum hætta þessari áætlun, hætta við hana og gefa þetta eftir, snúa við þessari áætlun sem tókst svo vel.

Hver eru þessi skilaboð út í umheiminn? Hvað felst í þessum skilaboðum? Það er kannski alvarlegasti hlutur þessa máls, það að stjórnvöld í þessu litla landi gefi að lokum eftir og þeir þrjóskustu af vogunarsjóðunum, sem ekki vildu semja við íslensk stjórnvöld, græði í lokin mest. Alla jafna ættu mál af þessari stærðargráðu að vekja athygli hér á þingi og stjórnarandstaðan ætti auðvitað að vera hér öll uppi í ræðustól að spyrja spurninga og fá svör við spurningum sínum. Nei, svo er ekki í þessu máli.

Frú forseti. Þetta mál snýst um að verja hagsmuni Íslands. Af hverju á ekki að gæta íslenskra hagsmuna í þessu máli?