149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil líka, af því að ég man ekki hvort mér tókst það í nótt, þakka honum fyrir ágæta ræðu í nótt þar sem þingmaðurinn notaði samlíkinguna um kappleik. Vestmannaeyingar eru gjarnir á að vilja stunda alls konar kappleiki og keppa og hv. þingmaður lýsti því ágætlega. Maður veltir því fyrir sér í framhaldi af ræðum þingmannsins — í nótt og núna — hvort þingmaðurinn telji að nú séum við að skora í eigið mark, þegar við látum undan þessum þrautseigustu vogunarsjóðum eða eigendum þessara krónueigna sem hafa neitað að taka þátt eða setið af sér tilraunir stjórnvalda fram að þessu til að klára eða losa okkur við þetta mál allt saman.

Undanhaldið byrjaði vissulega fyrir löngu en það er óvíst og hefur ekki fengist svar við því hér — við fáum kannski svarið við því á eftir, ég veit að formaður efnahags- og viðskiptanefndar er á mælendaskrá — hvort eitthvað banni eða komi í veg fyrir að við förum aftur til baka í fyrri áætlanir og förum að sækja aftur fram í staðinn fyrir að spila á okkar eigið mark. Þessu langar mig að velta upp við hv. þingmann.

Hv. þingmaður nefndi einnig réttilega að töluverðir fjármunir geta legið þarna undir. Það fer að vísu allt eftir því við hvað er miðað. Ef miðað er við 190 kr. hafa þær tölur margoft komið hér fram. Og það munar nokkuð um það, hvort sem það eru 13 milljarðar eða 11 eða 20 eða hvað það er — fyrir það er hægt að gera ýmislegt. Hv. þingmaður hefur talað fyrir ákveðnum leiðréttingum til ákveðinna hópa í þessu samfélagi og mig langar að spyrja hann hvort það væri ekki til þess að liðka aðeins fyrir málum hér á vinnumarkaði og í samfélaginu öllu ef þessir peningar yrðu nýttir í samfélagsleg verkefni.