149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:21]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Jú, auðvitað getum við gert heilmikið fyrir þá fjármuni sem hugsanlega hefðu getað áunnist ef haldið hefði verið fast við upphaflegar áætlanir. Áætlun um losun fjármagnshafta frá 8. júní 2015 gekk út á það að Seðlabankinn myndi halda útboð sem hann gerði í júní 2016, þar sem eigendum aflandskróna var boðið að kaupa erlendan gjaldeyri áður en stjórnvöld hæfu losun hafta á innlenda aðila. Fjárhæð samþykktra boða í þessu útboði nam 83 milljörðum af 188 milljörðum sem voru inni í þessum pakka. Og þessi viðskipti fóru fram á 190 kr. á hverja evru. Þarna var verið að losa meira en 40% af þessum krónueignum á 190 kr. evruna.

Það sem er að gerast núna er afturhvarf, endanlegt fráhvarf, frá aðgerðaáætlun stjórnvalda á þessum tíma um losun hafta. Þessi áætlun sem gerð var byggðist á þremur meginstoðum sem ráðast skyldi í sem eina heild þar sem allir legðu sitt af mörkum til endurreisnarinnar. Þeim þætti sem snýr að lausn aflandskrónuvandans er enn ólokið. En áform stjórnvalda nú ganga þvert á þá lausn sem ég var hér að nefna og lagt var upp með að fylgt yrði að meginstefnu. Þetta er fráhvarf, þetta er afturhvarf, þetta er undanhald.

Þessir aðilar veðjuðu á að íslensk stjórnvöld gæfust upp og að þeir gætu gengið frá borði með hæstu ávöxtun og þeim hefur orðið að ósk sinni.