149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:23]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Okkur hefur orðið tíðrætt um hversu hratt keyra á frumvarpið hér í gegn. Fyrir jólin átti að setja málið á dagskrá á síðasta degi þingsins án þess að þingmenn fengju tækifæri til að sjá frumvarpið. Okkur verður tíðrætt í þingsalnum um að okkur skorti svör við þeim spurningum sem við höfum.

Það eru gríðarlegir fjármunir undir sem hægt væri að nýta í brýn verkefni, eins og ítrekað hefur komið fram, hjúkrunarheimili svo dæmi sé tekið.

Þingmenn hafa velt upp spurningum sem varða gengi og vísitölu. Við erum að tala um 84 milljarða og vantar að skýra betur hvaða áhrif samþykkt frumvarpsins muni hafa.

Ég kom inn á það aðeins fyrr í dag að í fréttamiðlum dagsins mátti sjá að einhverjir þeirra hafa sent fyrirspurn til Seðlabanka Íslands og í einni fyrirspurn var spurt hvort varnaðarorð Seðlabankans hafi raungerst. Fram kom í svari bankans að svo hefði ekki verið. Því hefur verið haldið fram að við eigum að lesa frumvarpið betur, og ef það dugar ekki að lesa þá nefndarálitið. En okkur vantar enn svör við spurningunni af hverju frumvarpið komi inn núna og af hverju afgreiðsla þess á að vera með þessum hraða.

Okkur skortir líka enn svör við því af hverju frumvarpið þurfti að verða að lögum í gær eða í fyrradag ef litið er til umsagnar Seðlabanka Íslands sem er nokkuð sérstakt þar sem svör Seðlabankans til fréttamiðla í dag eru eins og þau eru. Það er ekkert að gerast.

Við þurfum að setja málið í samhengi. Að mínu viti er algjör uppgjöf á ferðinni, eiginlega ömurlegur endir á annars ágætri byrjun eins og lagt var upp með. Það er nefnilega alveg borðleggjandi að það átti aldrei að gefa eftir. Það er í sjálfu sér stórundarlegt af hverju menn misstu kjarkinn. Af hverju voru menn að gefa eftir? Af hverju fórnuðu menn svo miklum hagsmunum Íslands þegar uppleggið í byrjun var svo fullkomið og úthugsað?

Við getum sagt að verið sé að afsala sér tekjum ríkissjóðs, eins og sagt hefur verið í umræðunni, tekjum sem vel hefði verið hægt að nýta, t.d. til að reisa leiguíbúðir í óhagnaðardrifnum tilgangi til að koma til móts við húsnæðisvanda þeirra sem verst standa. Það væri gott innlegg í kjaraviðræður.

Í hádegisfréttum var líka sagt frá því að trúlega myndi loðnan bregðast okkur. Það svarar til 3% af vergri landsframleiðslu. Þar er líka eitthvað.

En skilaboðin sem stjórnvöld senda eru ístöðuleysi. Ekki er verið að hugsa þennan leiðangur til enda og okkur skortir enn svör við því hvað um er að vera.