149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Ég held að það sé einmitt mikilvægt að fá hér fram í ræðustól, og líklega kemur það á eftir, hvernig hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hyggst halda á málinu á nefndarfundi sem óskað hefur verið eftir að verði haldinn milli umræðna. Það er mikilvægt að málið fái efnislega umræðu og að einhverjum af þeim spurningum sem hér hafa komið fram verði svarað.

Hv. formaður og hinn skeleggi formaður nefndarinnar upplýsti í ræðu sinni, þeirri einu stuttu sem stjórnarliðið hefur flutt síðan umræðan byrjaði, að haldnir hafi verið þrír fundir í nefndinni. Það er alveg ástæða til að fara jafnvel aftur yfir þau mál sem þá voru rædd eða í það minnsta að ræða þau mál sem og þær spurningar sem hafa bæst við eftir umræðuna hér.

Hv. þingmaður þekkir vel til heilbrigðiskerfisins og hefur fjallað töluvert mikið um það í ræðum sínum. Því er freistandi að spyrja þingmanninn hvaða verkefni þingmaðurinn telji að myndu njóta góðs af því ef við nýttum þá fjármuni sem þarna virðast vera gefnir eftir, t.d. innan þess ramma sem þar er um að ræða. Við höfum ekki fengið að vita það. Við höfum hins vegar orðið vör við að flokkar sem alla jafna hafa talað fyrir því að sækja tekjur til atvinnulífsins, sækja tekjur til einstaklinga, hafa ekki haft miklar áhyggjur af því að þarna sé mögulega verið að gefa eftir milljarða eða milljarðatugi sem gætu nýst í ýmis verkefni, en þeir sömu ágætu flokkar tala mikið fyrir því að auka þurfi skattheimtu.