149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:33]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka enn og aftur hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir. Það er nefnilega rétt að það eru ótal brýn verkefni sem liggja fyrir og hægt er að nýta þessa fjármuni til. Í versta falli erum við að tala um 23 milljarða. Það er eitthvað. Það er sannarlega hægt að nýta þá mjög víða. Heilbrigðiskerfið sogar alltaf til sín meira og meira fjármagn. Einhvers staðar stendur að við nýtum töluvert lítið miðað við önnur OECD-lönd, ef svo má segja, en það er ekki nóg. Það þarf líka að skipuleggja hvernig við ætlum að nota þessa fjármuni.

Ég hef sagt það áður að ráðast þarf í algjöra uppstokkun á heilbrigðiskerfinu. Það getur ekki verið rétt að við séum að hrúga öllu á einn stað þar sem varla er hægt að komast að vegna umferðaröngþveitis, ef svo má segja. Það er ákall um aukna fjármuni í heilsugæsluna. Ég þekki aðeins til á Akureyri þar sem t.d. er varla hægt að fá tíma hjá heimilislækni sem þó á að vera fyrsti viðkomustaður. Aukið var í geðheilbrigðisþjónustu heilsugæslunnar. Samt sem áður er enn fimm mánaða biðtími eftir því að komast til sálfræðings fyrir norðan. Það eru ótal verkefni sem bíða og við getum sannarlega nýtt þessa fjármuni í liggur við hvað sem er.