149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:40]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni kærlega fyrir. Hann nefndi upphæðina 20–25 milljarðar og maður veltir fyrir sér: Af hverju er verið að gefa þessa fjármuni eins og staðan lítur út núna? Það er bara verið að gefa þá sisvona.

Það sem hægt væri að gera væri að stokka upp í heilbrigðiskerfinu. Mér líst ekkert mjög vel á þá vegferð sem hæstv. heilbrigðisráðherra er á núna með því að steypa allt í sama mót. Við erum í dag að sóa mjög miklum fjármunum með því að senda fólk út í liðskiptaaðgerðir meðan hægt er að gera þessar aðgerðir hér heima en það virðist ekki vera rými til þess þar sem þeir læknar sem geta tekið þær að sér vinna ekki í rétta húsinu. Það er svo einkennilegt að það eru allir ólíkir og það þarf að nálgast fólk með ólíkum hætti og segja má að það sé heldur ekki eðlilegt að öll þjónusta sé færð á einn stað.

Þingmaðurinn nefndi áðan forvarnir. Mér fyndist ótrúlega gott ef við næðum öll að hugsa svolítið í forvörnum. En það þýðir líka að hleypa fleiri aðilum að, grasrótarsamtökum svokölluðum og félagasamtökum, sem virðast ekki falla inn í box heilbrigðisráðherra og eru þar með jafnvel útilokuð frá því að leggja lið.