149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:07]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ræða hv. þingmanns, formanns efnahags- og viðskiptanefndar, kom mér eilítið á óvart. Ég hafði leyft mér að gera ráð fyrir því og a.m.k. vonast eftir að það yrði varpað ljósi á einhverjar af þeim fjölmörgu spurningum sem hér hefur verið varpað fram. Ég átti eiginlega ekki von á því að það yrði endursagt upp úr fundargerðum hv. efnahags- og viðskiptanefndar og þaðan af síður með þeim fjölda desíbela sem mér þótti mega merkja í hans framsögu.

En að þessu slepptu vil ég leyfa mér að segja að það er grundvallarplagg, sem a.m.k. ég hef lagt mikið upp úr í þessari umræðu, sem er áætlun ríkisstjórnar Íslands og Seðlabanka Íslands frá árinu 2015 þar sem lagður er grundvöllur að þeim aðgerðum sem almennt eru taldar hafa heppnast vel og ekki síst hefur hv. þingmaður haft um það mörg og góð orð. Það er rauður þráður í áætlun um hvernig unnið verði úr þessu efnahagslega hruni að varðandi hinar svokölluðu aflandskrónueignir verði farin uppboðsleið. Það er stór spurning í málinu hvers vegna núna er horfið frá því.

Þessu tengt er spurningin: Hvaða fjárhæðum verður ríkissjóður hugsanlega af vegna þessarar stefnubreytingar, vegna ákvörðunar um að hverfa frá þessari leið? Og í leiðinni, ef við erum kannski að leggja hérna í púkkið fyrir frekari gagnasöfnun og upplýsingasöfnun á (Forseti hringir.) vettvangi hv. efnahags- og viðskiptanefndar, væri mjög áhugavert að vita hvaða fjárhæðum uppboðsleiðin hefur skilað (Forseti hringir.) frá því að hún var tekin upp, en það er að nokkru leyti rakið í greinargerð með frumvarpinu hvernig staðið var að framkvæmd hennar.