149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:17]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Afstaða mín mótast ekki af einhvers konar hræðslu við það að við gætum hugsanlega tapað einhverju máli. Afstaða mín mótast af þeirri sannfæringu að það þjóni hagsmunum íslensku þjóðarinnar best að taka þetta skref sem við höfum verið að vinna okkur inn öll þessi ár. Ég skil ekki af hverju það er svona erfitt fyrir suma þingmenn, háttvirta vini mína í Miðflokknum, að gleðjast. Hv. þm. Bergþór Ólason spurði mig: Bíddu, hvað hefur breyst frá því að ESA felldi sinn úrskurð árið 2016? Að vísu gekk ESA út frá því að íslensk stjórnvöld væru af heilindum að vinna að því að fjármagnshöft yrðu afnumin að fullu eins og íslensk stjórnvöld hafa alltaf lofað að yrði gert, enda í samræmi við allar þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist, ekki bara í EES-samstarfinu heldur gagnvart Alþjóðabankanum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, OECD o.s.frv. Við erum á þeirri leið að uppfylla þessar alþjóðlegu skuldbindingar okkar. Það er rétt að gera það.

Ég vona innilega að hv. þingmenn Miðflokksins taki þátt í þeirri aðgerð en reyni ekki að gera hana tortryggilega vegna þess að hún er ekkert tortryggileg því að hún er það skynsamlegasta og það besta sem við getum gert fyrir íslenskan almenning og íslenskan efnahag. Þetta er svona einfalt.

Hvað hefur breyst frá árinu 2016 — ESA? Ja, aflandskrónustaflinn hefur t.d. minnkað, hæstv. forseti, um 112–120 milljarða. (Forseti hringir.) Það er töluvert, það eru 84 milljarðar eftir. Við erum að reyna að klára þetta og koma á heilbrigðu umhverfi í samskiptum við erlenda fjárfesta og umhverfi (Forseti hringir.) fyrir íslenska fjárfesta erlendis.