149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:20]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það eru einmitt þessar pólitísku ákvarðanir sem eru undirliggjandi sem okkur hefur þótt vanta verulega á að fá útskýringar á og svör við í þeirri umræðu sem hefur farið fram í dag og í gær. Það eru, eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom inn á áðan, miklu frekar pólitísku atriðin en útskýringar embættismanna sem við teljum okkur vera í lausu lofti með. Það er ákvörðun að láta afléttingarferlið ekki ganga til enda, það er pólitísk ákvörðun. Staðreyndin er sú að þegar EFTA fellir sinn úrskurð er ein af lykilforsendunum þar að jafnræðis sé gætt gagnvart jafnsettum krónueigendum. Niðurstaðan (Forseti hringir.) núna er sú að þeir krónueigendur sem mest streittust á móti (Forseti hringir.) voru okkur erfiðastir þegar staðan var snúnust. En þeir eru að fá haganlegustu meðhöndlunina. Það er auðvitað pólitísk (Forseti hringir.) ákvörðun. Það er ekki ákvörðun sem er tekin í Seðlabankanum.