149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég varð ekki var við að hv. þingmaður, frekar en aðrir, reyndi að halda því fram að ef menn hefðu fylgt planinu hefði það ekki skilað betri niðurstöðu. Enda er í raun ómögulegt að halda því fram og fyrir vikið ómögulegt að halda því fram að menn séu hér að fara bestu leiðina. Ætli menn væru ekki aðeins stoltari af málinu ef þeir tryðu því raunverulega að þetta væri besta leiðin, þeir sem eru að reyna að koma þessu frumvarpi í gegn? Ætli þeir hefðu þá ekki treyst sér kannski í nokkrar ræður til að útskýra fyrir okkur hinum hvers vegna þetta er besta leiðin? Ætli þeir hefðu ekki jafnvel reynt að gera dálítið úr þessu máli fremur en, eins og hv. þingmaður, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, kom reyndar aðeins inn á án þess að útskýra það, að reyna ítrekað að lauma því beinlínis hér í gegn? Fyrst að koma með það á síðustu stundu, á síðasta þingdegi, og reyna að koma því inn á dagskrá þar sem ekki hafði verið gert ráð fyrir því og svo að smeygja málinu í gegn nánast á sama tíma og búið var að setja þingið allt í uppnám með ólöglegum aðgerðum gagnvart ákveðnum hópi þingmanna. Þá skýst fjármálaráðherra hér inn í salinn og talar hratt í rúmar sex mínútur og það telst afgreiðsla 1. umr. þessa máls.

Ef menn teldu raunverulega að þetta væri besta leiðin og svona góð tíðindi, eins og annars tiltölulega önugur formaður efnahags- og viðskiptanefndar hélt fram áðan, hefði þá ekki ríkisstjórnin kynnt þetta sem eitt af sínum stóru málum, að það væri verið að losa hér höft? Nei, það var ekki talið tilefni til þess. Frekar að leita tækifæra þegar sem fæstir væru að fylgjast með til að smeygja málinu í gegn.