149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Það er alveg augljóst að sá málatilbúnaður sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar hafði uppi snerist ekki um spurningar okkar eða áhyggjur heldur eingöngu um að réttlæta fyrir nefndarformanninum sjálfum að það þyrfti að klára þetta með þeim hætti sem lagt er upp með í nefndarálitinu og væntanlega þá af Seðlabankanum og þeim er bera þetta mál fram.

Það er annað sem ekki hefur verið útskýrt nánar en kom fram hjá hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar og það er að ekki séu lengur aðstæður fyrir hendi til að halda áfram með það plan sem lagt var af stað með 2015. Hver túlkar það? Hver er það sem ákveður að þær aðstæður séu ekki fyrir hendi? Hv. þingmaður nefndi réttilega dæmi, reyndar frá Asíu eða Suður-Kóreu, þar sem menn hafa verið áratugum saman eða í mörg ár lokaðir inni með ákveðnar eignir. Eru til einhverjar reglur sem hv. þingmaður veit um? Eru til einhver viðmið sem gilda? Er það ekki bara mat okkar hvenær þær aðstæður eru fyrir hendi að hægt sé að aflétta þessum höftum algjörlega og með hvaða aðferð það er gert? Í það minnsta hefur hv. þm. Óli Björn Kárason ekki reynt að útskýra fyrir okkur hvernig það mat er fengið fram, með hvaða rökum og hver hefur haft þá skoðun, fyrir utan kannski nefndarformanninn sjálfan, að nú sé staðan sú að við getum ekki réttlætt lengur að halda áfram með planið sem lagt var af stað með 2015. Aðeins til að bera blak af hv. formanni nefndarinnar er vitanlega svolítið síðan menn fóru að beygja af brautinni, fóru að gefa eftir, og nú ætlar að formaðurinn að klára það mál algjörlega með þessu.