149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, flutti athyglisverða ræðu. Ég vil þó byrja á að þakka honum fyrir eitt sem var jákvætt við ræðuna. Hún var þrungin af guðfræðilegri hugsun, sem er lofsvert.

Hv. þingmaður talaði um að menn ættu að vera glaðir. Þar vitnar hann væntanlega til Filippíbréfsins (4:4). Og síðan segir hann að við eigum að koma fram við aðrar þjóðir eins og við viljum að þær komi fram við okkur. Þetta hljómar allt afskaplega vel. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það.

Hins vegar skil ég ekki alveg málflutning hans þegar kemur að hugtakanotkun. Hann talar um sjálfbæran greiðslujöfnuð og viljaafstöðu fjárfesta. Ég held að nauðsynlegt sé að hann skýri merkingu þessara hugtaka og hvaða hagsmunir eru bundnir við þau. Er þetta varanlegt ástand? Viljaafstaða fjárfesta hljómar sem getgátur. Ég vænti þess að hv. þingmaður skýri þetta nánar.

Ég ætla að víkja aðeins að vormánuðum 2016 þegar aflandskrónueigendum voru settir afarkostir með lögum. Lögin snerust um að bræða, ef svo má að orði komast, hina svokölluðu aflandskrónuhengju sem þá var um 319 milljarðar kr. þannig að hægt yrði að ráðast í frekari losun á þeim fjármagnshöftum sem Íslendingar höfðu búið við um nokkurra ára skeið.

Málið var lokahnykkur í því haftalosunarferli sem staðið hafði yfir um nokkurt skeið og söfnun á gjaldeyrisforða, greiningu á greiðslujafnvægi íslenska hagkerfisins og samningum við kröfuhafa föllnu bankanna.

Aðferðafræðina þekkjum við og hún hefur verið rædd. Í einföldu máli snerist hún um að eigendum aflandskróna voru boðnir tveir kostir. Annar fólst í því að eigendurnir myndu samþykkja að selja krónurnar sínar á ákveðnu gengi. Ósamvinnuþýðir aflandskrónueigendur sem neituðu að taka þátt í útboðinu fengu annað tækifæri til að koma sér út úr íslensku hagkerfi á enn verri kjörum.

Síðan voru fyrirmælin þau að hefðu þeir ekki farið út með peningana sína væri alls kostar óljóst hvenær þeir hefðu fengið aftur aðgang að sínum eignum. Rétt er að vitna í seðlabankastjóra, Má Guðmundsson, sem sagði af þessu tilefni við Morgunblaðið að þeir myndu leitast við að hafa þá aftasta í losun hafta, aftasta í röðinni.

Maður spyr því: Hvað breyttist síðan á leiðinni og hvers vegna? Það þarf að fá fram. Það er ein af þeim lykilspurningum sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson kom einmitt inn á áðan sem verður að fá svör við.

Það er eitt athyglisvert sem er rétt að komi hér fram. Sjö þingmenn úr Vinstri grænum, og reyndar Píratar líka, sátu hjá við afgreiðslu frumvarpsins um aflandskrónuútboðið á vormánuðum 2016. Hins vegar ætla Vinstri grænir, og væntanlega Píratar líka, að styðja þetta frumvarp sem er lakara fyrir ríkissjóð.

Þetta er mjög athyglisvert og væri ástæða til að fá svör frá Vinstri grænum hvað þetta varðar. Hvers vegna sátu þeir hjá í útboðinu 2016 sem gaf góða raun fyrir ríkissjóð, en ætla hins vegar að styðja þetta frumvarp sem er mun lakara hvað varðar hagsmuni ríkissjóðs? Ég vonast til að fá tækifæri til að eiga orðastað við einhverja af þingmönnum Vinstri grænna um þetta.