149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður fór áðan ágætlega í gegnum upplýsingar sem sneru að eigendum þessara krónueigna og þar fram eftir götunum. En í því samhengi, þar sem hann er fulltrúi Miðflokksins í fjárlaganefnd, kom upp í huga minn spurningin hvort þetta mál og þau áhrif sem það kann að hafa hafi verið rætt í fjárlaganefnd að einhverju marki eða eitthvað yfir höfuð. Nú er ekki langt síðan lagt var fram minnisblað eða skýrsla, plagg hið minnsta, í fjárlaganefnd sem ég tel mig hafa séð afrit af þar sem var verið að tala um áhættuþætti í fjárlagavinnunni sem fram undan er.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái þetta spila saman. Eru þarna áhrif sem gætu komið fram sem voru mögulega tilgreind í því plaggi sem rammaði inn áhættuþættina í fjárlagavinnunni sem fram undan er? Eða er þetta mál, þessi aflétting hafta, svo lítið og einfalt í hugum þeirra sem á halda að ekki sé talin ástæða til að líta á það sem áhættuþátt í fjárlagavinnunni?