149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því að hv. þm. Óli Björn Kárason talaði í ræðu áðan um að sú leið sem boðuð er í þessu frumvarpi sem við höfum rætt um nokkra stund sé sú eina rétta. Ég heyrði ekki sjálfur þau rök fyrir þessu áliti hv. þingmanns sem sannfærðu mig um að svo væri. Finnst hv. þingmanni að nægileg rök hafi verið færð fyrir því sem styðji þá fullyrðingu að sú leið sem hér er farin, þ.e. að hleypa út eða losa um 84 milljarða á þessu gengi dagsins, sé besta leiðin fyrir land og þjóð?