149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar talaði mikið um dagatalið í allsérstakri ræðu sinni hér áðan og lítið um hvernig þetta mál tengdist einhverri pólitískri sýn. Athugasemdir hans um dagatalið, og hvað hefði gerst á hverjum degi, þóttu mér áhugaverðar. Þær eru til þess fallnar væntanlega að drepa málum á dreif.

Þegar maður telur allt saman fer þetta að líta út eins og of miklar tilviljanir. Rifjum aðeins upp, fyrst að málið kom skyndilega inn á síðasta degi þingsins, 14. desember í fyrra, og að reynt var að smeygja því í gegn strax á fyrsta degi, að því er virtist, helst án umræðu. Það var í raun bara fyrir tilviljun sem við uppgötvuðum þessi áform og báðum að sjálfsögðu um að ekkert yrði af því enda vorum við á móti málinu. Svo birtist það hér aftur 22. janúar, á sama tíma og forseti Alþingis var búinn að setja allt upp í loft í þinginu og menn funduðu hér um allt vegna annarra mála.

Ég hafði þó rekið augun í að þá ætluðu menn að nota tækifærið og smeygja þessu í gegn og hugðist halda um það ræðu en hafði ekki einu sinni tíma til að sækja blöðin mín í næsta hús því að hæstv. fjármálaráðherra smeygði sér í ræðustólinn og kláraði ræðu á rúmum sex mínútum í staðinn fyrir 30 mínútum sem hann hafði til ráðstöfunar. Ég næ ekki að rekja dagatalið frekar í þessu andsvari en þegar þetta er allt tekið saman um framgang málsins hér í þinginu fer þetta þá ekki að líta út eins og mál sem ríkisstjórnin vill fela frekar en mál sem hún er stolt af?