149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við sjáum að það er lágskýjað yfir vinnumarkaði á Íslandi frekar en bjart. Það vofir yfir að hér verði allharðar vinnudeilur og eru í raun byrjaðar. Vonandi tekst að afstýra því; ég hef engan áhuga á því að hér logi allt stafna á milli í vinnudeilum. Það er því ekki hægt að fullyrða að það sé endilega rosalega bjart fram undan líkt og var árið 2016 þegar menn sáu fram á að aðgerðirnar sem gripið var til myndu skila gríðarlega miklum fjármunum í ríkissjóð. Það var hins vegar þeirra sem á eftir komu að taka þá ákvörðun að hverfa frá þessu og það gerist um mitt ár 2016, þá skipta menn hreinlega um gír og falla frá þeirri góðu áætlun sem var í gangi.