149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það er margt sérkennilegt við þetta mál og innihald þess. Það er líka búið að vera margt sérkennilegt við framgang þess í þinginu. Gerðar hafa verið ítrekaðar tilraunir til að lauma því í gegn með ýmsum tilburðum sem maður hefur svo sem séð áður þegar stjórnvöld vilja ekki fá mikla athygli á mál. En svo bíta menn höfuðið af skömminni með því að koma upp og kvarta yfir því að þingmenn Miðflokksins hafi ekki talað nógu mikið um málið á fyrri stigum og kvarta um leið yfir því að þeir tali of mikið um málið núna í 2. umr., sem er auðvitað meginumræðan um lagafrumvörp. En látum það liggja á milli hluta að sinni.

Eðli þessa máls, eins og ég nefndi, er á margan hátt skrýtið. Það er skrýtið hvernig fjallað hefur verið um það í þinginu eða réttara sagt hversu mikill skortur hefur verið á umfjöllun um málið af hálfu þeirra sem ætlast til þess að Alþingi geri það að lögum. Þannig hefur aðeins einn hv. þingmaður allra þeirra flokka sem virðast ætla að styðja þetta mál haldið um það ræðu í 2. umr. Fyrst með því að lesa upp nefndarálit í sex mínútur eða svo og síðan með ræðu áðan sem var á margan hátt afskaplega sérkennileg en innihélt ekki mikið af pólitík. Það vantar nefnilega alveg pólitísku skýringarnar á því hvers vegna farið er fram með þeim hætti sem við höfum horft á. Þess í stað er vitnað í vilja kerfisins, ef svo má segja, þar með talið alþjóðafjármálakerfisins og mikilvægi þess að Ísland sé í náðinni þar á bæ. Það er umræða sem við höfum heyrt oft áður í tengslum við eitt og annað viðfangsefni.

En það að enginn annar stjórnarliði eða fulltrúi annarra flokka sem ætla að styðja þetta mál hafi treyst sér til að koma hér upp, ég tala nú ekki um að menn treysti sér til að styðja þetta pólitískt, er á allan hátt sérkennilegt. Þær skýringar að ekki sé lengur forsvaranlegt að viðhalda höftum, sem voru talin ekki aðeins forsvaranleg heldur nauðsynleg 2016, vegna þess að efnahagsástandið hafi batnað svo mikið, halda auðvitað ekki vatni eins og menn sjá enda voru efnahagshorfur betri 2016 en núna.

Við höfum haft áhyggjur af því að þetta mál rynni í gegn umræðulaust eins og virtist vera lagt upp með. Hins vegar liggur fyrir að málið mun fara til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd milli 2. og 3. umr. Ég hef fengið fullvissu fyrir því að að loknum þeim nefndarfundi verði málið ekki sett strax aftur inn í þingið í skyndi til að klára það að næturlagi heldur muni 3. umr. fara fram á morgun. Við getum þá afgreitt þetta mál, með hvaða hætti sem niðurstaðan verður, í björtu og tækifæri gefst eftir nefndarfund fyrir menn til að skoða hug sinn gagnvart því fyrir þá sem ekki virðast hafa kynnt sér það og þar af leiðandi ekki verið reiðubúnir til að ræða um það. En vonandi fáum við í 3. umr. að heyra meira af áliti stuðningsmanna málsins á því hvers vegna rétt sé að samþykkja það.

Í ljósi þessarar niðurstöðu, í ljósi þess að málið verði ekki keyrt hér í gegn í kvöld, tel ég óhætt að bíða með nokkur atriði sem ég hefði viljað nefna hugsanlega í fleiri ræðum í kvöld en reyni að gera þeim skil í styttra máli á morgun.