149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[11:51]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hef eina fyrirspurn til hv. þingmanns. Nú hefur það komið fram hér í ræðum að upphaflega upphæðin, sem um var að ræða, var um 1.200 milljarðar kr., þar af fóru 1.116 milljarðar út á ákveðnum kjörum sem lagt var upp með á vormánuðum 2016. Eftir standa 84 milljarðar sem eru í eigu vogunarsjóða og undir sjóðstýringu bandarískra sjóðstýringarfyrirtækja sem svífast einskis í áróðri sínum og hafa m.a. reynt að hafa áhrif á kosningar hér á landi. Nú liggur það fyrir að þessir sjóðir hafa unnið veðmálið. Þeir eru að fara út héðan á betri kjörum en þeir sem fóru út á vormánuðum.

Ég spyr hv. þingmann: Hvert er tekjutap ríkissjóðs? Hver er munurinn í krónum talið, í milljörðum talið, ef þessir 84 milljarðar hefðu farið út á sama tíma og meginþorri þeirra krónueigna sem fóru út á vormánuðum 2016?