149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

uppgræðsla lands og ræktun túna.

397. mál
[18:00]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um uppgræðslu lands og ræktun túna sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðherra, að gera tillögur að breytingu á lögum og/eða reglugerðum sem miði að því að koma á fót hvatakerfi þannig að landeigendur hafi ávinning af því að græða upp land og stöðva jarðvegsrof með uppskeru af túnum sem nýtist ekki sem fóður. Ráðherra greini Alþingi frá tillögum sínum eigi síðar en 1. apríl 2019.“

Í greinargerðinni kemur eftirfarandi fram:

Jarðvegur er dýrmæt auðlind. Hann er undirstaða fæðuframleiðslu jarðarbúa og mikilvægur í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun. Landgræðsla er eitt af forgangsmálunum í loftslagsstefnu Íslands. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir árin 2018–2030 segir: „Fáar þjóðir hafa eins góð tækifæri og Íslendingar til að draga úr losun vegna landnotkunar og efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi.“ Þar er nefnt sérstaklega að endurheimt votlendis sé veigamikill þáttur í að draga úr losun og að hægt sé að binda kolefni úr andrúmslofti með landgræðslu og skógrækt.

Eyðing gróðurs og jarðvegs hefur um langa hríð verið eitt helsta umhverfisvandamál á Íslandi. Síðastliðin ár hefur Landgræðsla ríkisins unnið markvisst að því að efla grasrótarstarf í landgræðslu og gróðurvernd og flytja verkefni frá Landgræðslunni heim í héruð. Samvinnuverkefnið Bændur græða landið er dæmi um slíkt framtak. Verkefnið hófst árið 1990 og eru þátttakendur þess um 600 talsins. Verkefninu er ætlað að styrkja bændur og landeigendur um land allt til landgræðslu á jörðum sínum, stöðva rof og auka möguleika á sjálfbærri nýtingu í framtíðinni. Víða hefur náðst góður árangur. Margir þátttakendur hafa bætt lönd sín, breytt ógrónu landi í nothæft beitiland og aukið þannig arðsemi þess. Miklu varðar að halda áfram að vinna markvisst að uppgræðslu lands enda er gott ræktunarland á heimsvísu af skornum skammti. Ræktunarland hérlendis er takmarkað og því mikilvægt að finna leiðir til að varðveita það til framtíðar. Í því sambandi er mikilvægt að skapa jákvæða hvata til að viðhalda ræktun í túnum sem annars færu í órækt með tilheyrandi verðmætatapi og skertum möguleikum í framtíðinni á að nýta þau til fóðurframleiðslu. Einnig er mikilvægt að bændur nýti heyfyrningar í verkefnið og þar með verði stuðlað að skynsamlegri nýtingu á lífrænu efni, í stað þess að það grotni niður heima á búunum.

Sauðfjárbændur hafa sýnt landgræðslu og kolefnisbindingu mikinn áhuga. Dæmi um þetta er metnaðarfull aðgerðaáætlun Landssamtaka sauðfjárbænda sem kom út í október 2017. Þar kemur fram að íslensk sauðfjárrækt skuli verða kolefnisjöfnuð fyrir árið 2027 en liður í þeirri áætlun er landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis. Tilgangur verkefnisins er þríþættur: „Í fyrsta lagi getur það hjálpað til við markaðssetningu afurðanna að þær séu vottaðar kolefnishlutlausar. Í öðru lagi vilja bændur sýna samfélagslega ábyrgð í verki með kolefnisjöfnun sauðfjárræktarinnar. Í þriðja lagi er þetta leið til að skapa fjölbreyttari atvinnutækifæri á landsbyggðinni og betri rekstur búa.“ Þetta er gríðarlega metnaðarfull áætlun sem vert er að sýna virðingu.

Uppgræðsla lands og nýting túna samræmist markmiðum stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018–2024. Þar er áhersla m.a. lögð á sjálfbæra þróun byggða og fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land og að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að vinna að endurheimt votlendis og bindingu í jarðvegi. Flutningsmenn tillögurnar, sem eru auk mín þau Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Ásgerður K. Gylfadóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson og Bryndís Haraldsdóttir, telja mikilvægt að treysta þann hvata sem bændur hafa til uppgræðslu lands og að skapa jákvæða hvata til að viðhalda ræktun í túnum. Telja flutningsmenn í þessu skyni rétt að ráðherrar þeirra málaflokka sem varða landbúnað og umhverfismál kanni hvaða breytingar nauðsynlegt er að gera á lögum og regluverki til að styrkja framangreinda hvata og geri í kjölfarið tillögu að breytingum með þetta að markmiði. Eðlilegt er að verkefnið verði unnið í samstarfi við Landgræðslu ríkisins sem kortleggi hvaða svæði henti best í landgræðslu af þessu tagi.

Við yfirlestur þingsályktunartillögunnar kemur fram að skila beri tillögum eigi síðar en 1. apríl 2019 en ég tel það alveg borðleggjandi að það muni breytast í meðförum nefndarinnar nái tillagan fram að ganga.

Hæstv. forseti. Í stefnu Landgræðslu ríkisins frá 2008–2020 kemur fram að meira en helmingur af frjósömu landi hafi farið forgörðum frá því að landbúnaður hófst á jörðinni og jarðvegseyðing sé ein mesta ógn mannkyns. Jarðvegur er ein mikilvægasta auðlind okkar og án hans væri landið óbyggilegt. Jarðvegur er auðlind sem þarf að hlúa að. Hann er mikilvægasta auðlind okkar og án hans værum við illa stödd og landið jafnvel óbyggilegt.

Undanfarnar aldir hefur stór hluti þessarar mikilvægu auðlindar glatast. Fjöldi þátta spilar þar inn í og má þar nefna eldvirkni og aðrar náttúruhamfarir, sem og búseta mannsins í samspili við kalda veðráttu. Þetta hefur raskað vistkerfum og sett svip sinn á landið okkar.

Landgræðsla ríkisins sinnir mikilvægu hlutverki við að vernda gróður og jarðveg og bæta landgæði. Landgræðslan starfar samkvæmt lögum um landgræðslu nr. 17/1965, og lögum um varnir gegn landbroti nr. 91/2002, sem voru sameinuð í lög nr. 155/2018. Hlutverk hennar er m.a. að stuðla að því að efla gróður og auka þannig mótstöðuafl lands gegn eyðingu. Íslendingar standa framarlega á sviði landgræðslu og mikill árangur hefur náðst í að endurheimta landgæði. Þó eru enn svæði á landinu sem glíma við alvarlega jarðvegseyðingu. Það er stóra verkefnið að glíma við. Stjórnvöld geta með áætlunum sínum markað stefnuna. Hún þarf að vera heildstæð, framsýn og byggjast á faglegum rökum. Hún þarf líka að hafa sjálfbærni að leiðarljósi því að við þurfum að huga að komandi kynslóðum.

Í gegnum tíðina hafa bændur lagt mikið af mörkum til að efla landgæði. Sú mikla þekking og reynsla sem safnast hefur upp í gegnum tíðina nýtist til að takast á við þetta verkefni.

Í stefnu Landgræðslu ríkisins frá 2008–2020 er m.a. fjallað um hvernig unnið skuli að því að vernda og efla vistkerfi og koma í veg fyrir gróðureyðingu og stöðvun jarðvegsrofs, sem ógnar náttúrunni og öðrum verðmætum. Landgræðslustarf er mikilvægur liður í því að vinna gegn vaxandi magni koltvísýrings í andrúmsloftinu. Það eru mikil tækifæri í að binda kolefni í jarðvegi. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem nær yfir árin 2018–2030 er eitt af markmiðum að efla landgræðslu til kolefnisbindingar. Með leyfi forseta, vitna ég í það:

„Ráðist verður í átak í kolefnisbindingu með landgræðslu og framlög til þess aukin verulega á komandi árum. Áætlun verður gerð um útfærslu þessa átaks. Rík áhersla verður lögð á að stöðva landeyðingu og draga úr losun frá gróðri og jarðvegi og m.a. unnin sérstök stefna og aðgerðaáætlun um endurheimt birkiskóga og víðikjarrs. Aðgerðasvæði verða afmörkuð á grunni landslagsheilda og svæðum til kolefnisbindingar verður forgangsraðað, m.a. þannig að land í hnignun sem losar kolefni njóti forgangs. Áhersla verður því lögð á að verja og varðveita lífrænan jarðveg þar sem hann er til staðar. Lífræn efni svo sem kjötmjöl, seyra eða molta verða eftir föngum nýtt í verkefninu í stað innfluttra áburðarefna.“

Öflugt landgræðslustarf er lykillinn í þeim verkefnum.

Eins og fram hefur komið hafa bændur í gegnum tíðina lagt mikið af mörkum við að efla landgæði. Bændur eru vörslumenn lands. Verkefnið Bændur græða landið er samstarfsverkefni bænda og Landgræðslunnar, eins og áður er vikið að, um uppgræðslu heimalanda. Því var formlega hleypt af stokkunum árið 1994.

Eitt helsta markmið verkefnisins er uppgræðsla heimalanda og skilyrði fyrir þátttöku í verkefninu er að á landinu séu lítt eða ógróin svæði og beitarálag sé þar hóflegt. — Þetta er tekið upp úr skýrslu frá ársskýrslu verkefnisins frá 2017. — Landgræðslan annast faglega ráðgjöf og eftirlit með verkefninu. Landgræðsla ríkisins styrkir bændur um 85% af verði uppgræðsluáburðar og lætur þeim í té fræ ef þess gerist þörf.

Í ársskýrslu verkefnisins Bændur græða landið fyrir 2017 kemur einnig fram, með leyfi forseta:

„Frá upphafi hefur BGL verið eitt af mikilvægustu verkefnum Landgræðslunnar og fyllilega sannað gildi sitt. Í gegnum verkefnið hefur fjölmörgum hekturum ógróins eða illa farins lands verið umbreytt í gróið land, jarðvegsrof hefur verið stöðvað, auk þess sem verkefnið er grundvöllur öflugs og náins samstarfs Landgræðslunnar við bændur og aðra landeigendur um allt land. Með verkefninu hefur skilningur bænda á landnotkun og landgræðslu aukist og einnig hefur bæst verulega í þekkingarbrunn Landgræðslunnar.“

Hæstv. forseti. Jarðvegur er undirstaða allrar matvælaframleiðslu á þurrlendi jarðar. Jákvæðir hvatar þurfa að vera til staðar og regluverk þannig úr garði gert að það hamli ekki framþróun í þessum málum.

Í 10. gr. reglugerðar 1118/2017, um almennan stuðning við landbúnað, er sérstaklega kveðið á um að framlögum skuli ráðstafað á ræktað land sem uppskorið er til fóðuröflunar. Hér væri hægt að breyta þessu í þá veru að einnig mætti greiða landgræðslur á land þar sem uppskeran er ætluð til landgræðslu. Þetta er ein leið til að skapa jákvæða hvata fyrir bændur sem sinna landgræðslu.

Vissulega hafa bændur og landeigendur nýtt moð og hey á mela og jafnvel stór landsvæði. Það hefur sýnt sig gefa góðan árangur og ég hef orðið vitni að gríðarlega góðum árangri. Víða um land eru lítt grónir sandar og melar og í sumum tilfellum stafar gróðurleysi af því að aðstæður eru óhagstæðar gróðri, t.d. vegna mikillar hæðar yfir sjó, sandburðar og/eða veðurfars. Í öðrum tilfellum hefur áður gróið land blásið upp. Við getum flýtt endurkomu gróðurs með ýmsu móti. Ógróna sanda og mela vantar lífrænt efni en lífrænt efni eykur vatnsheldni jarðvegsins og möguleika hans til að geyma næringarefni.

Það sem fékk mig til að leggja fram þetta mál en sú staðreynd að víða eru tún að fara í órækt. Ræktuð tún eru verðmæti og í þeim liggur mikil vinna og fjárfesting sem menn hafa lagt í. Fari þessi verðmæti forgörðum erum við að sóa verðmætum og þrengja að eða jafnvel loka á framtíðarmöguleika til búskapar og matvælaframleiðslu.

Við erum að selja landið okkar sem ferðamannaland. Við viljum fá fólk um allt land, viljum hafa öfluga og blómlega byggð um allt land. Það er ekki fallegt eða aðlaðandi að horfa upp á tún sem eru að fara í órækt. Það stingur í augun og ásýnd sveitanna er ekki góð. En það kostar mikið að heyja og það kostar mikið að ná heyjunum af túnunum. Menn hafa í ríkum mæli, eins og ég benti á áðan, verið að dreifa moði og heyi í sitt nærumhverfi. En ef við komum því á að þetta verði liður í landgræðslu, bændur og landeigendur geti fengið stuðning við þetta, auðvitað undir handleiðslu og stýringu Landgræðslunnar þar sem þekkingin er mest á því og hvar það myndi skila bestu bestum árangri, þá held ég að við værum að slá nokkuð margar flugur í einu höggi.

Við erum að vernda verðmæti. Við erum að hugsa um atvinnumál. Við erum að hugsa um byggðamál. Við erum að hugsa um umhverfismál. Við erum að tikka í öll þessi box þegar kemur að þeim málum og þetta er mikið samvinnumál, eðlilega, þar sem við Framsóknarmenn og fleiri góðir félagar okkar eru á málinu. En ég held að þetta sé einstök aðstaða, af því að ég hef þá bjargföstu trú að inn í framtíðina eigum við að leggja enn meiri áherslu á matvælaframleiðslu.

Við eigum að nýta landið okkar og auðæfin. Við höfum hreina náttúru, hreint land. Við höfum hreina búfjárstofna sem við eigum að efla og rækta áfram. Ef við berum gæfu til þess að verja þau auðæfi sem við eigum í túnunum erum við að halda opnum möguleikum fyrir afkomendur okkar inn í framtíðina og þá sem á eftir okkur koma til að stíga þau skref, auka hér fæðuöryggi og matvælaframleiðslu, sem ég held að muni skipa æ mikilvægari sess til framtíðar litið. Þar liggur styrkur okkar Íslendinga. Við erum svo lánsöm að fá að búa í þessu landi með öllum þessum tækifærum. En við megum ekki glutra hlutunum niður, hvorki með því að ógna búfjárstofnum okkar með innflutningi á hráu kjöti né hrámeti, eða með því að láta landið drabbast niður og vanvirða þá vinnu sem forfeður okkar hafa unnið í uppbyggingu og landgræðslu.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég leggja til að málinu verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar og ég vona að það fái þar góðan framgang.