149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

uppgræðsla lands og ræktun túna.

397. mál
[18:15]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í ljósi umræðu sem hefur skapast um andsvör og samsvör þá veit ég ekki alveg hvort ég á að þora hér upp en ég ætla nú að gera það engu að síður. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu, sem vel að merkja ég er meðflutningsmaður á. Ég tek heils hugar undir svo margt sem fram kom í ræðu hv. þingmanns. Við búum við svo mikil gæði á Íslandi og við verðum að huga sérstaklega að þeim.

Hér er rætt um að vinna þetta með Landgræðslunni og ég veit að hv. þingmaður þekkir það mjög vel og fór ágætlega yfir það í ræðunni og hefur dýpri og meiri þekkingu á því. En í ljósi frétta sem ég held ég hafi heyrt í gær um stöðu rannsókna hjá Landbúnaðarháskólanum, þá langaði mig að vekja athygli á því og ég hvet nefndina til að kalla sérstaklega eftir umsögn frá Landbúnaðarháskólanum um þetta mál. Ég held að það færi mjög vel á því.

Ég held að það sé mikilvægt að við hugum að einmitt hlutum sem við erum góð í. Nú erum við t.d. með Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem reyndar má ekki lengur heita það, mun heita eitthvað annað, varðandi landgræðslu. Við höfum svo margt fram að færa og þess vegna er svo mikilvægt að við höldum vel utan um þá þekkingu. Ég verð að viðurkenna það, virðulegur forseti, að mér var mjög brugðið þegar ég heyrði þessar fréttir í gær og finnst reyndar ástæða til þess að við hér á þingi skoðum hver staðan er í rannsóknum, nýsköpun og vísindum í mikilvægum þáttum eins og uppgræðslu, landbúnaðarlandi og öðru. Þetta er svo beintengt því sem við höfum verið að ræða í fleiri málum í dag sem varða kolefnisjöfnun og tækifærin sem við höfum í þeim efnum.

Fyrirgefið, virðulegur forseti, en spurning mín til þingmannsins lýtur að tengslunum við Landbúnaðarháskólann. Hvernig getum við reynt að virkja betur þá þekkingu sem er til staðar og ýtt undir hana? Gæti þessi þingsályktunartillaga kannski verið hluti af þeirri vinnu?