149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

uppgræðsla lands og ræktun túna.

397. mál
[18:33]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að þakka þeim sem tekið hafa þátt í þessari umræðu. Eftir hana þá hef ég trú á því að við séum ekki stödd úti í skurði, alla vega ef við þrjár sem höfum talað hér fáum að stýra þessu máli, en sú verður kannski ekki raunin. Ég veit að þetta er gríðarlega mikilvægt mál. Það er blóðugt að fara um landið og horfa upp á tún fara í órækt. Sú er staðan í mörgum sveitum og á of mörgum svæðum landsins, sem betur fer ekki alls staðar en það er til. Ef við náum þessu fram, nýtum tækifærin sem liggja í þessu, þá erum við að slá svo margar flugur í einu höggi. Ef við horfum út frá byggðaáætlun þá uppfyllum við áætluð áform þar um að fjölga atvinnutækifærum um landið, við sinnum líka umhverfismálunum, við erum að tala um rannsóknir og alls konar vinnu í kringum þetta og nýtingu á tækjum sem standa kannski illa nýtt stóran hluta ársins hjá bændum um allt land. Fyrir utan það nýtum við efni sem ekki er notað til fóðuröflunar í að loka landinu, græða landið, byggja það upp. Það má nýta líka fyrningar, get ég séð fyrir mér. Það er áhrifaríkara að nýta, eins og reyndar margir hafa gert og mætti gerast í enn meira mæli, fyrningar og dreifa þeim um, það hlýtur að vera hagstæðara en að láta þær grotna niður heima við bæ. Ég held að ef við náum að nýta þessar auðlindir skynsamlega þá náum við enn þá lengra og náum enn þá betri árangri á þessu sviði.

Í liðinni kjördæmaviku fór ég um mitt stóra kjördæmi sem nær alla leið frá Djúpavogi og norður á Siglufjörð. Þar eru mjög fjölbreytt samfélög eins og menn þekkja. Það eru ekki bara mismunandi þéttbýliskjarnar heldur eru sveitasamfélögin líka mjög misjöfn. Á ákveðnum svæðum þar hefur stórum kúabúum verið að fjölga, það er blómleg byggð, mikil uppbygging og miklar framfarir eiga sér stað. Þegar bændur höfðu 10 ára búvörusamning, þá gátu þeir farið að byggja fjós og fjárfesta til framtíðar af því að þá fékkst fjármagn í það þannig að það gengur. Það hefur verið harðara hjá sauðfjárbændum, þar hafa verið erfiðari tímar núna. Þar sem ég bar þessa hugmynd upp, ég gerði það á flestum stöðum, var afskaplega vel í hana tekið, verð ég að segja. Mönnum hugnaðist þetta vel, þeir sem ég ræddi við um þetta. Menn eru tilbúnir í að prófa þetta, taka þátt í þessu og ef við getum fært þetta áfram er ég alveg fullviss um að þetta eigi eftir að hjálpa okkur áfram. Túnin eru fljót að fara í órækt. Það þarf ekki mörg ár áður en þau eru orðin ónýt og þá þarf að vinna það upp aftur eða þau drabbast bara niður.

Ég vil þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu og ég vona að málið fái góða og ítarlega umfjöllun í nefndinni. Eflaust má einhvern veginn bæta það eða breyta. Strax sé ég að það þarf að breyta dagsetningum, tímatakmörkunum um hvenær því eigi að ljúka, en það er bara smámál. Við þurfum að horfa inn í framtíðina. Við þurfum að hugsa um afkomendur okkar og þá sem koma til með að búa í þessu landi til framtíðar. Við Framsóknarmenn höfum alla vega fullan hug á því að hér getum við áfram boðið upp á heilnæmar landbúnaðarafurðir og ræktað landið okkar með skynsamlegum hætti, nýtt allar auðlindir landsins og byggt upp heilbrigð og falleg samfélög og við erum ekkert ein um það. Það er held ég breið samstaða um það. Ég vil að lokum þakka þessa umfjöllun.