149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

kolefnisspor innlends og innflutts grænmetis.

[10:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ein af aðgerðunum sem munu hafa úrslitaáhrif í baráttunni gegn hlýnun jarðar og súrnun sjávar er breyttar neysluvenjur fólks. Stefna íslenskra stjórnvalda varðandi kolefnisspor matvæla á Íslandi er vægast sagt óljós og ég vil biðja hæstv. landbúnaðarráðherra að upplýsa okkur um hvað sé að gerast í þeim efnum hvað varðar innlenda grænmetisframleiðslu í samanburði við innflutt grænmeti. Svo árangur náist í baráttunni við hlýnun jarðar og súrnun sjávar er dagljóst að til þess þarf vilja almennings til breytinga sem og pólitískan vilja og kjark stjórnvalda.

Í Bændablaðinu frá því í fyrra kemur fram að samkvæmt úttekt sem verkfræðistofa gerði fyrir Samband garðyrkjubænda er kolefnisspor íslensks grænmetis allt niður í 26% af því sem innflutt grænmetis skilur eftir sig. Í afskornum blómum er talan 18%. Að meðaltali er helmingsmunur á losun, íslenskri framleiðslu í hag. Þetta eitt sýnir að mikill umhverfisávinningur væri af aukinni innlendri framleiðslu á grænmeti.

Stefna stjórnvalda miðar við að búið verði að kolefnisjafna Ísland fyrir árið 2040. Það verður ekki gert nema með víðtækum aðgerðum á mörgum sviðum og liður í því ætti að vera að mínu mati að efla innlenda grænmetisframleiðslu til að draga úr mikilli kolefnismengun sem hlýst af innflutningi. Með því fengist einnig gjaldeyrissparnaður, aukið fæðuöryggi, styrking byggða og aukin atvinna.

Er reiknað með aukinni innlendri grænmetisframleiðslu við endurskoðun áætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum?