149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

kolefnisspor innlends og innflutts grænmetis.

[10:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta er í rauninni tímamótafyrirspurn, því ber sérstaklega að fagna að Samfylkingin sé farin að tala núna um að efla innlenda framleiðslu. Það er fagnaðarefni þegar það hljóð kemur úr þeirri átt að menn horfi til þess að styðja með öflugri hætti en við höfum hingað til gert við innlendan landbúnað. Hér voru sérstaklega nefnd afskorin blóm og ég minni hv. þingmann á það að að hluta til er sú framleiðsla innan lands vernduð með tollum á erlendan innflutning. Ég fagna því þegar Samfylkingin slær þann tón sem hér um ræðir.

Ég tek undir að það eru miklar breytingar á neysluvenjum að eiga sér stað og við erum núna að vinna í ákveðnum verkum þeim tengdum. Í fyrsta lagi vil ég nefna stefnu um opinber innkaup á matvælum þar sem lagt er út frá áherslum ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, m.a. að stuðla skuli að því að innkaup í opinberum mötuneytum taki mið af kolefnisfótspori þeirra matvæla sem keypt eru inn. Þetta er í mótun. Við eigum von á því að fá fyrstu hugmyndir starfshópsins núna í apríl þar að lútandi. Við störtuðum þessu verki í fyrrahaust og þarna eru mikil tækifæri.

Sömuleiðis vil ég nefna matvælastefnu sem unnið hefur verið að í mínu ráðuneyti um nokkurt skeið. Áætlanir voru uppi um að sá vinnuhópur skilaði tillögum í lok þessa árs en ákveðið hefur verið að breikka það verkefni og draga fleiri ráðuneyti að því og vinna það verk undir yfirstjórn forsætisráðherra. Á þeim grunni verður miklu heildstæðari stefnumörkun unnin. Við erum því að vinna á mörgum sviðum í þessum efnum. Um það sem snýr að garðyrkjunni sérstaklega vil ég nefna að núna stendur yfir endurskoðun búvörusamninganna. Við höfum þegar lokið vinnu við endurskoðun sauðfjársamnings. Væntanlegt er frumvarp hingað inn vegna þessa. Ég fékk í síðustu viku í hendur álit (Forseti hringir.) samstarfshóps um nautgriparækt og næsta verkefni er endurskoðun samnings um garðyrkju.