149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

kolefnisspor innlends og innflutts grænmetis.

[10:46]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því ef grænmetisbændur eldast því að það ber vott um að þeir njóti sinnar góðu, hollu framleiðslu. Það er betra að þeir eldist en að þeir sleppi því, þannig er það bara. Ég varð vitni að því á ferð þingflokks Sjálfstæðisflokksins nú í kjördæmaviku þar sem við heimsóttum m.a. allnokkur fyrirtæki á því sviði að þar hafa átt sér stað kynslóðskipti, yngra fólk er að taka við. Ungir grænmetisbændur með miklar hugmyndir og góð áform um að stækka framleiðslu sína og taka stærri sneið, ef við getum sagt svo, af þeim markaði. Ég hef því ekki orðið var við að það séu miklir erfiðleikar í þeim efnum, en sjálfsagt er að líta til þess.

Þegar hér eru nefndir styrkir til grænmetisframleiðenda á Íslandi vil ég fyrst af öllu segja að það er nokkur styrkur. Það er sjálfsagt að ræða möguleika á því með hvaða hætti unnt er að auka hann en við þurfum líka að minna á að við höfum ákveðið regluverk um ríkisstyrki EES. Það er ekki sama hvernig það er gert. Ég fagna öllum hugmyndum í þá veru, hvernig hv. þingmaður sér það geta gerst og hvet hana til að koma þeim áformum eða hugmyndum sínum á framfæri við ráðuneytið. Ég mun fúslega koma þeim á framfæri til samráðshópsins sem stendur (Forseti hringir.) í endurskoðun búvörusamninganna um þessar mundir.