149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[14:30]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég verð að játa að þetta er með sérkennilegri tillögum sem ég hef séð í þessum þingsal og hef ég fylgst með þinginu lengi þó að ég hafi ekki setið hérna mjög lengi. Hér er verið að leggja til að spurt sé í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort fólk vilji að flugvöllur sé hér með öllu því sem á eftir kemur, uns annar jafn góður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar.

Herra forseti. Hvað annað stendur til? Heldur hv. þingmaður að færa eigi flugvöllinn eitthvað í bili á meðan þar til annar jafn góður eða betri kostur finnst? Ég hélt að Sjálfstæðisflokknum væri annt um að fara vel með fjármuni. Ég spyr því: Hvað mun þessi tillaga kosta sem er um að spyrja ekki um neitt?

Ég er svo sem alveg til í ýmsar þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er fínt að spyrja þjóðina. Eigum við að spyrja þjóðina hvort við eigum að setja sjúkraþyrlur víða um landið? Eigum við að spyrja þjóðina um Fjarðarheiðargöng? Eigum við að spyrja þjóðina um aðstöðu til fæðinga í Vestmannaeyjum? Allt eru þetta þjóðhagslega mikilvæg mál og listinn er nánast ótæmandi. Við getum skemmt okkur hér dálítið fram á vor við að tala um mögulegar þjóðaratkvæðagreiðslur ef þetta eru viðmið fyrir tillögum á Alþingi.