149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[14:31]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Málið snýst m.a. um að verja þá stöðu sem nú er uppi varðandi málefni Reykjavíkurflugvallar. Það er ekki langt síðan einni af þremur flugbrautum var lokað. Það var ekki gert með neina öryggishagsmuni í huga, eins og fram kom í svari borgarstjóra í viðtali við Morgunblaðið í desember sl. þar sem hann lýsti því yfir að öryggissjónarmið hefði ekki verið það sem menn voru að hugsa um þegar þriðju brautinni var lokað. Það er akkúrat það, vegna þess að það er grunnöryggisþáttur í þessu landi, t.d. að komast á Landspítalann. (KÓP: Sjúkraþyrlur.) — Já, það þarf lengri umræðu ef menn ætla í alvöru árið 2019 að fara að tala um sjúkraflug með sjúkraþyrlum og halda að það sé lausn allra mála. Þá eigum við býsna langt eftir í þessari umræðu (Forseti hringir.) til að dýpka hana hér í sal Alþingis.