149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[14:32]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Þá skulum við fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvar við ætlum að setja flugvelli víða um land þar sem sjúkraflugið getur verið hérna megin, þannig að við þurfum ekki að keyra jafnvel um langan veg á flugvöllinn hinum megin. Hér erum við á hinu háa Alþingi að leggja til þjóðaratkvæðagreiðslu um að taka skipulagsvaldið af sveitarfélagi.

Aftur: Eigum við ekki bara að fara niður þá götu, eigum við að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um skipulag Hvalárvirkjunar, flughlað á Akureyrarflugvelli? Það eru ýmis umdeild mál sem sumir segja að séu þjóðhagslega hagkvæm, þar sem er mjög auðvelt að beita nákvæmlega sömu rökum og hér. En hingað til höfum við virt þá skiptingu sem er á milli ýmissa valdstiga, milli tveggja valdstiga, löggjafans og svo sveitarfélaga.

Ég spyr hv. þingmann, fyrrverandi sveitarstjórnarfulltrúa, hvernig honum hefði liðið í bæjarstjórn Akureyrar ef við hefðum verið hér að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu um einhver skipulagsmál Akureyrarkaupstaðar.