149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[14:33]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er málið. Við erum greinilega ekki á sama stað, við erum með mannvirki sem eru til staðar í dag sem menn tala um að loka og hafa lokað að hluta til nú þegar. Við erum ekki að tala um nýbyggingar eða annað. Og ef menn ætla að vera með svona málflutning, að tala um þetta á sambærilegum nótum, eins og hv. þingmaður lýsti, held ég að við þurfum að fara í miklu dýpri efnislega umræðu um þau mál sem snúa að þessu. (KÓP: Ertu að draga tillöguna til baka?)Nei, ég er að tala um að reyna að fá dýpri umræðu í þinginu um málefni sem tengjast þessum hlutum.

Því er þannig háttað að Landspítalinn – háskólasjúkrahús sér um allar erfiðustu aðgerðir sem framkvæmdir eru í þessu landi, hvort sem þær snúa að fyrirburum, hjartaaðgerðum eða tauga- og heilaskurðlækningum, öllum erfiðustu áverkum sem verða vítt og breitt um landið. Þá snýst það um að koma fólkinu hingað. (Forseti hringir.) Þannig að mér finnst ekki góður málflutningur að bera þetta saman, eins og þau dæmi sem hv. þingmaður tók rétt áðan. (Gripið fram í.)