149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[14:36]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Kannski getur hv. þingmaður útskýrt betur fyrir mér hvað hún á við. Ég átta mig ekki á hvernig þessi tvö mál tengjast sem er annars vegar flugvöllurinn á höfuðborgarsvæðinu eða í Reykjavík og síðan sjúkraflug í landinu. Ástæðan fyrir sjúkraflug … (Gripið fram í.) Já, miðstöðin snýst um að koma fólkinu til Reykjavíkur. Ég er ekki að tala um það í þessari greinargerð að flytja sjúkraflugið til Reykjavíkur.

Ástæðan fyrir því að miðstöðin er á Akureyri er landfræðileg, það er talið að almennt séu menn sneggstir að komast vítt og breitt um landið út frá þeirri staðsetningu. Það er valið á því þannig að það sé á hreinu. Það er ekki verið að tengja það neitt saman sérstaklega.

Ástæðan fyrir spurningunni, að það sé ekki bara spurt hvort völlurinn eigi að vera í Reykjavík eða ekki, er að það er verið að reyna að ná einhverju samkomulagi, víðara samkomulagi, menn gætu hugsað sér að þar til jafn góður eða betri kostur er kominn sé vellinum haldið í Reykjavík. Það er ástæðan fyrir orðalaginu.