149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:14]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að ég notaði orðið skipulagsvald og mig minnir að ég hafi líka sagt skipulagsskylda, sem er sennilega betra orð.

Ég er talsmaður þess, hv. þingmaður, að við tökum algjörlega í gegn og skoðum vel skipulagsmál á landinu. Það getur vel verið að það leiddi til þess að við gerðum einhverjar breytingar í þá átt sem Svíar eru með og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson kom inn á. Það getur varðað lagnir, það getur varðað vegi, styttingar á vegum, flugvelli og örugglega ýmislegt annað. En tilgangurinn helgar ekki alltaf meðalið og við þurfum fyrst að fara í gegnum það án þess að grípa í einstöku tilfelli fram fyrir hendurnar á sveitarfélögum.

Ég get spurt á móti: Eigum við að vera með þjóðaratkvæðagreiðslu um styttingu leiðarinnar fram hjá Blönduósi, sem hagnast öllum íbúum en kemur illa við Blönduósinga? Eigum við ekkert að leyfa þeim að koma nálægt því? Eigum við að vera með þjóðaratkvæðagreiðslu um loftlínur gegnum Akureyri, sem eru nauðsynlegar til að færa orku milli landshluta en er eitthvað sem við hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson munum aldrei geta sætt okkur við?

Ég held að alveg sama hversu göfug markmið fólk hefur með málflutningi sínum og tillögum verði einfaldlega að byrja á réttum enda. Tökum þá umræðu endilega, en ég sé hins vegar ekki ástæðu til að örvænta vegna þess að ég er svo sannfærður í hjarta mínu sjálfur að hægt sé að finna lausn sem bæði ég og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson erum ánægðir með.