149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:49]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Árið 2013 söfnuðust 70.000 undirskriftir á fjórum, fimm vikum við aðalskipulag Reykjavíkur sem sneri að Reykjavíkurflugvelli, að því að verja flugvöllinn. Þá var gert ráð fyrir því í framlagðri aðalskipulagstillögu að norður/suður-brautin yrði lögð af árið 2016. Það hefði þá gerst fyrir þremur árum. Samkomulagið sem gert var þá var að lengja líftíma norður/suður-brautarinnar um sex ár, til ársins 2022. Nú eru þrjú ár í þá tímasetningu.

Þetta er sáttatillaga um það að völlurinn fái að halda sér í núverandi stöðu þangað til jafn góður eða betri kostur finnst. Unnið er í því að skoða fleiri kosti. Svo að Reykjavíkurborg kæmi með eitthvert útspil, væri þá ekki hægt að endurskoða aðalskipulagið þannig að borgaryfirvöld myndu taka út þessa dagsetningu, árið 2022, gera aðalskipulagsbreytingu þannig að hjá borginni kæmi fram vilji til að leysa málið? Við vitum öll sem sitjum í þessum þingsal að það verður ekki kominn nýr flugvöllur, tilbúinn, lagður, fullbyggður, eftir þrjú ár. Það er miklu lengra ferli. En vegna sögulegs samhengis hlutanna í málinu, vegna þess hvernig hlutir hafa þróast undanfarin ár og hvernig höggnir hafa verið hlutar af vellinum og stöðugt verið farið fram gegn honum, væri það ekki yfirlýsing um sáttarvilja frá borginni að skoða a.m.k. þann möguleika að framlengja í aðalskipulagi tilveru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni, norður/suður-brautarinnar og vallarins alls? Í dag er miðað við að norður/suður-brautin fari árið 2022 og völlurinn allur 2024.

Þetta er staða málsins í dag. (Forseti hringir.) Þessi tillaga snýst um að finna lausnina, verja stöðuna þannig að þetta endi ekki með ósköpum.