149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:58]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir seinna andsvar. Sú sem hér stendur er þingmaður, ekki borgarfulltrúi. Þess vegna get ég ekki borið fram neina kröfu af hálfu Reykjavíkurborgar. Ég hef ekkert slíkt vald og ítreka það sem fram kom í fyrri ræðu minni, að mér er kunnugt um (Gripið fram í.) að borgarstjóri Reykjavíkur situr í nefnd nú sem áður, sem er einmitt að fjalla um þetta mál, framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Ég veit ekki til þess að gerð hafi verið nein krafa um það frá Reykjavíkurborg að flugvellinum verði lokað. Ég hef hvergi heyrt það. Ég held að það séu bara einhverjar heimatilbúnar getgátur hjá flutningsmönnum ef eitthvað slíkt er því að hvergi hefur komið fram nein vísbending um neitt slíkt frá borgaryfirvöldum, nema síður sé.

Ég held því að við getum alveg verið róleg hvað það varðar en ítreka að mér finnst óþægilegt hversu margir stjórnarþingmenn virðast ekki ætla að standa heils hugar að baki hæstv. samgönguráðherra sem skipaði þessa nefnd þegar þeir ætla í rauninni að vinna gegn mögulegri niðurstöðu nefndarinnar. Ég hef áhyggjur af því.