149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[16:19]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka það sem ég sagði: Já, mér finnst þingsályktunartillagan kómísk að því leytinu til að mér finnst svarið við spurningunni liggja í augum uppi. Mér finnst ekki ástæða til að verja 300–400 millj. kr. í þjóðaratkvæðagreiðslu til að fá það svar fram, líka í ljósi þess að hér er þá væntanlega fyrst og fremst um einhvers konar 300–400 millj. kr. skoðanakönnun að ræða því að hún hefur ekkert lagalegt gildi, hún er ekki bindandi fyrir Reykjavíkurborg um ákvarðanir hennar.

Ég held að flestir séu fullkomlega sammála þeirri staðhæfingu að það er ekki skynsamlegt að færa flugvöll fyrr en liggur ljóst fyrir hvert hann á að fara. Ég veit að hv. þingmaður er mjög ötull talsmaður ábyrgrar meðhöndlunar á opinberu fé, hann situr með mér í fjárlaganefnd og er þar mjög ötull talsmaður nákvæmlega þess sama. Ég held að hann gæti alveg tekið undir með mér að við gætum fundið betri not fyrir þessa fjármuni þegar svarið liggur augljóslega fyrir.

Ég ætla ekki að karpa við hv. þingmann um mismunandi kosti. Ég veit að hann er mjög vel að sér í málefnum flugsins og ég dreg ekki í efa sérfræðiþekkingu hans í þeim efnum. Ég er ekkert að gera lítið úr mikilvægi þess að ásættanleg lausn finnist fyrir innanlandsflug. Þetta mál snýst ekkert um það. Vandinn snýst um að stjórnvöld, ríkisstjórnir þessa lands, hafa þverskallast við á undanförnum árum, í raun og veru alla tíð frá því að vilji borgaranna lá fyrir, og í raun neitað að hlusta á borgina, neitað að viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt borgaranna í málinu, neitað að setjast niður af einhug til að finna ásættanlega lausn fyrir innanlandsflugið og fyrir borgina, fyrir alla íbúa þessa lands. Ég má ekki gleyma því, það er alveg rétt, landsbyggð á hér ríka hagsmuni af góðu, öflugu innanlandsflugi, en borgin á auðvitað líka mjög ríka hagsmuni í þessu máli.

Þessi staðsetning flugvallarins í hjarta borgarinnar er ekki ákjósanleg staðsetning flugvallar, (Forseti hringir.) líka út frá öryggissjónarmiðum. Ég held að engum heilvita manni dytti í hug ef við stæðum frammi fyrir þeim möguleika í dag að setja niður flugvöll á þeim stað sem Reykjavíkurflugvöllur er á, einmitt út frá öryggissjónarmiðum.