149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

bráðavandi SÁÁ.

[15:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Af því að hv. þingmaður talar um að göngudeildir hafi hingað til verið reknar fyrir sjálfsaflafé er það einmitt sú athugasemd sem ítrekað hefur komið inn í þingsalinn að rétt væri að við, ríkið, sem kaupendur heilbrigðisþjónustu, legðum aukna áherslu á að kaupa þá þjónustu af SÁÁ sem göngudeildarþjónustan er og ráðstafa opinberu fé í þá átt. Þess vegna standa nú yfir samningar milli Sjúkratrygginga Íslands og SÁÁ um slíka þjónustu, einmitt vegna þess að þingið taldi mikilvægt að tryggja starfsemina á fjárlögum með sérstöku og eyrnamerktu framlagi. Þess vegna kemur mér á óvart að það skuli vera einhver ólyst í kringum það mál.

En af því að hv. þingmaður spyr síðan um stöðu mála á Landspítala – háskólasjúkrahúsi var ég síðast í morgun að ræða við forstjóra Landspítalans. Undirbúningurinn er á góðri leið, þ.e. við búumst við því að geta hafið þjónustuna fyrir þennan hóp á Landspítala nú í sumar. Nú þegar er hafinn undirbúningur með barnaverndaryfirvöldum til að tryggja samfellu þar. (Forseti hringir.) Þetta er auðvitað afar mikilvæg en viðkvæm þjónusta og þekkingin er fyrir hendi á Landspítalanum.