149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

heilbrigðismál fanga.

[15:26]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, en því miður er það ekki í neinu samræmi við þær upplýsingar sem ég hef fengið, bæði hjá umboðsmanni Alþingis sem og hjá Fangelsismálastofnun bara nýlega, sem ég heimsótti. Staðan er einfaldlega sú að fangaverðir sinna öllum þeim atvikum sem upp koma í fangelsinu, hvort sem þau tengjast alvarlega geðsjúkum og hættulegum föngum, föngum í miklum fráhvörfum eða föngum sem haldnir eru líkamlegum sjúkleika. Þeir gera þetta vissulega eftir bestu getu, en hafa ber í huga að fangavarðanám er samtals allt að níu mánuðir og kemur auðvitað alls ekki í staðinn fyrir nám í heilbrigðisfræðum, hvort sem um er að ræða hjúkrunar- eða læknisfræði. Þeim er gert að meta andlega og líkamlega líðan, gefa lyf, bera smyrsl á alvarleg sár og bregðast við hvers konar uppákomum sem eiga sér stað í fangelsum landsins, hvort sem um er að ræða hættuástand gagnvart þeim sjálfum eða öðrum föngum.

Skortur á úrræðum í málefnum geðsjúkra fanga hefur leitt til þess að þeim er haldið lengur innan fangelsis í frelsissviptingu en lög gera ráð fyrir. Þetta er auðvitað rosalega alvarlegt mál. Það er mjög alvarlegt að búa þannig um hnútana að þetta sé (Forseti hringir.) bara í einhverju samtali við Sjúkratryggingar þegar staðan er eins alvarleg og raun ber vitni. Við verðum að gera betur en þetta af því að hver einasti dagur frelsissviptingar er mjög íþyngjandi þótt aðbúnaðurinn væri ekki jafn hörmulegur og raun ber vitni.