149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

aðgerðaáætlun gegn mansali.

[15:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil árétta að það er ákvæði í hegningarlögum sem tekur til þess sem menn kalla mansal í daglegu tali. Þar er auðvitað skilgreiningaratriði að um nauðung sé að ræða og eftir því ákvæði er unnið, það gera bæði lögregla og ákæruvald og aðrir sem koma að þessum málum. Það kann að vera t.d. að hv. þingmaður — ég veit það ekki, en mér hefur þótt gæta þess í umræðunni að menn vilji vísvitandi, eða kannski af misskilningi, blanda saman í eitt umræðu um mansal og því sem alla jafna er kallað félagslegt undirboð, sem er auðvitað allt annars eðlis. Ég held að það sé mikilvægt að aðskilja þetta tvennt í umræðunni.

En það breytir því hins vegar ekki að lögregla og aðrir þurfa að vera vakandi fyrir mögulegu mansali hér á landi eins og annars staðar. Við þekkjum að það er vaxandi vandamál varðandi skipulagða fólksflutninga í misgóðum og misgöfugum tilgangi. Ég myndi segja að lögreglan væri mjög vel með á nótunum í þessum efnum. Hún hefur fengið sérstaka fræðslu um þessi mál, heldur reglulega fræðslu fyrir almenna lögreglumenn, einmitt til þess að geta verið í stakk búin til að greina hugsanlegt mansal.

Hvað fjármálaáætlun varðar vil ég nefna að ekki hefur sérstaklega verið gert ráð fyrir fé til mansalsmála í fjármálaáætlun. Rannsóknir um brot er lúta að mansali lúta sömu lögmálum og önnur lögbrot hér á landi og lögreglan starfar innan (Forseti hringir.) fjárlagaramma. Að sjálfsögðu falla mansal og rannsóknir á mansalsmálum þar undir eins og önnur lögbrot.

(Forseti (SJS): Forseti vill hrósa hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum fyrir að standa sig afburðavel í að virða tímamörk þó að tímamælingakerfið liggi niðri. Það má kannski bara slökkva á því til frambúðar.)