149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

raddbeiting kennara.

511. mál
[16:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að halda aðeins áfram þar sem frá var horfið hjá hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni, þ.e. með rafræna veggi. Ég tek undir þann málflutning en vil bæta aðeins við að það eru ákveðin kennslutæki sem við getum nýtt líka, sem eru hljóðbækur. Það er ekki á færi allra að lesa upp námsefni á þann hátt sem kemst vel til skila í hljóðbók. Alveg eins og það er ekki hver sem er sem getur verið prestur og tónað. Það getur ekki endilega hvaða kennari sem er komið frá sér efni á góðan og skiljanlegan hátt á hljóðbók eins og margir sem hafa hlustað á hljóðbækur hafa kannski áttað sig á, að ef lesarinn hentar ekki slaufar maður hljóðbókinni „med det samme“, afsakið slettuna. Þetta er nokkuð sem mér finnst eiga við hérna fyrir framtíðarhugmyndir um námsefnisþróun, að hljóðbækur séu teknar þar inn líka.