149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

framtíð microbit-verkefnisins.

536. mál
[16:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir fyrirspurnina. Ég vil nefna að nú í ráðuneytinu erum við að móta menntastefnu til ársins 2030 og ljóst að ein af lykiláskorununum í þeirri mótun er að efla verk-, iðn-, starfs- og tæknigreinar í skólakerfinu. Það liggur fyrir, eins og ég hef nefnt áður í þessum ræðustól, að ef við ætlum að takast á við áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar þurfum við að huga sérstaklega vel að þessum greinum. Eins og fram kom núna á ráðstefnu þar sem við vorum að fjalla um Ísland og þessar áskoranir er hlutfall þeirra sem útskrifast úr þessum greinum sérstaklega lágt á Íslandi. Við vitum jafnframt að nýsköpun, rannsóknir og þróun eru drifnar áfram af þessum greinum. Í mínu ráðuneyti erum við að vinna að aðgerðaáætlun um það hvernig við getum eflt þessar greinar. Við erum svo sannarlega að forgangsraða fjármunum í þessa veru. Eitt nýjasta dæmið um það er ný námsleið til stúdentsprófs í tölvuleikjagerð, en búið er að tryggja fjármagn til að hefja kennslu næsta haust.

Microbit-verkefnið, eða öllu heldur áhersla á forritun, er í dag fellt inn í stærri verkefni sem mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur að með Samtökum iðnaðarins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, RÚV og öðrum hagsmunaaðilum. Má þar m.a. nefna Verksmiðjuna, sem er nýsköpunarkeppni ungs fólks á aldrinum 13–16 ára, og Nýsköpunarkeppni grunnskóla, sem er fyrir nemendur 11–13 ára. Í báðum þessum nýsköpunarkeppnum er forritun einn þáttur sem unnið er með. Microbit-verkefnið hefur þróast frá því að snúast um að koma microbit-smátölvum til nemenda í 6. og 7. bekk í það að vera hluti af forritunarkennslu í grunnskólum og hluti af nýsköpun og forritun á verkefnum sem mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur að í samvinnu við hagsmunaaðila.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr út í það hvort allir nemendur í 6. og 7. bekk fái sína eigin tölvu eins og þegar verkefnið hófst. Því er til að svara að sú breyting var gerð að í stað þess að allir nemendur í 6. og 7. bekk fengju sínar eigin tölvur fá skólarnir þar til gerð bekkjarsett sem nýtast til forritunarkennslu, en eftir slíkum bekkjarsettum hafa skólarnir einmitt kallað. Með þessu er verið að styrkja umgjörð verkefnisins í skólunum og festa það enn frekar í sessi. Skólunum er í sjálfsvald sett að lána nemendum tækin heim ef eftir því er óskað. Samstarfsaðilar um microbit-verkefnið munu áfram keyra vefsvæðið Kóðinn 1.0, sem er öflug upplýsingaveita með myndböndum, forritunarverkefnum og áskorunum fyrir krakkana. Skólarnir nýta sér það eins og þeim hentar. Auk þess eru verkefnin opin til notkunar fyrir alla sem hafa áhuga.

Einnig er spurt að því hver sé framtíð verkefnisins. Microbit er verkfæri sem hægt er að nýta á marga vegu og það er mín ósk og vilji til þess hjá öllum samstarfsaðilum að nýta það sem mest og best í mismunandi verkefnum. Þess ber þó að geta að það eru til önnur verkfæri, svo sem aðrar tegundir smátölva og forritunarkerfi sem er hægt að nýta í forritun og forritunarkennslu. En það er ljóst að microbit-verkefnið hefur náð mikilli útbreiðslu og það er almenn ánægja með það. Ég vil fyrir mitt leyti halda áfram að stuðla að því að auka veg þess og það er auðvitað mjög ánægjulegt, virðulegi forseti, að það hefur vakið marga til meðvitundar og umhugsunar um forritun og margir skólar hafa stóraukið forritunarkennslu í kjölfarið. Það er jákvæð þróun sem vert er að byggja ofan á og þess vegna var ákveðið að láta alla skóla fá smátölvur að þessu sinni og leyfa þeim síðan að vinna þetta áfram á eigin forsendum í kennslu. Það vill svo til að sending á microbit-tölvunum mun berast til landsins í þessari viku og í framhaldinu munu skólarnir geta óskað eftir tölvunum til notkunar.

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu frumkvæði hjá þáverandi menntamálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, fyrir að hafa vakið máls á þessu og innleitt með þessum hætti. Í mínum huga er svo brýnt að börn og ungmenni hafi aðgengi að mismunandi námsgögnum til að efla sig. Lykilatriði í þessu, og það tekur ákveðinn tíma, er að kennarar hafi gott aðgengi að forritunum og geti tileinkað sér þau.