149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

framtíð microbit-verkefnisins.

536. mál
[16:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma inn á upphaf microbit-verkefnisins, hvernig það var innleitt í skólana. Ákveðnir skólar tóku leiðtogahlutverk í því efni og byrjuðu með microbit. Þeir unnu þar ákveðið frumkvöðlastarf og kynntu það síðan í öðrum skólum sem sóttu þá um að fá að taka þátt í microbit-verkefninu. Þá fóru kennarar frá þessum upphafsskólum og víðar til þeirra með nýju tölvurnar og unnu að því að innleiða verkefnið.

Það væri áhugavert að heyra hvernig gengið hefur að dreifa þessari þekkingu, hver aðstoð kennaranna er. Nú er ansi mikið safn upplýsinga í kóðanum og væri mjög slæmt ef það væri vannýtt til framtíðar. Það væri mjög gaman að sjá aðra ítrun á það kennsluefni, gera það betra og viðameira, auka þátttöku nemenda þar o.s.frv.

Ég vil spyrja aftur um aðgengi að tölvunum. Eins og hæstv. menntamálaráðherra sagði er skólum það í sjálfsvald sett að lána út tölvurnar. Mikill hluti af þessu, af nýsköpun, er nefnilega að geta dundað sér við að nota nýtt tæki. Ég velti fyrir mér hvort hægt væri að nálgast tækið á einhvern hátt, t.d. með því að kaupa tæki ef bara er verið að gefa út bekkjarsett. Mér reiknast til að stykkið kosti um 2.000–3.000-kall eða eitthvað svoleiðis þannig að það væri alla vega auðveldlega hægt að bjóða upp á það á einhvern hátt að hver og einn fengi eigið eintak. Það myndi jafnvel hjálpa þeim sem eldri eru og vilja prófa að fara í stafræna smiðju og búa sér til eigin þjark með lítilli, ódýrri tölvu sem er gríðarlega fjölhæf, eins og hér er um að ræða.