149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

friðun hafsvæða.

545. mál
[17:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Það er alkunna að höfin ná yfir tvo þriðju jarðarkringlunnar. Íslenska lögsagan er 700.000–800.000 ferkílómetrar og við þurfum að horfa til þessa svæðis, vegna þess að það er vaxandi tilhneiging til að friða hafsvæði eða hluta sjávar hér og hvar. Stóra-Bretland ert.d. með metnaðarfulla áætlun sem heitir Blue Belt, bláa beltið, þar sem horft er til 4 milljóna ferkílómetra. Það eru til regnhlífarsamtök sem kallar sig Mission Blue, þar sem eru um 200 almenningssamtök sem hafa merkt sér 120 vonarsvæði sem þau kalla svo, „hope spots“, hér og hvar um heiminn, sem er verið að vinna að friðun á. Í Norðurskautsráðinu hafa verið uppi áætlanir um að friðlýsing allt að 10% Norður-Íshafsins komist á dagskrá hægt og rólega. Þetta eru hugmyndir sem geta varðað búsvæði sjávardýra, hrygningarsvæði eða uppeldisstöðvar. Það eru botngerðir, kórallar, þörungar og annað slíkt.

Tilgangur svona friðunar er auðvitað beinar mengunarvarnir, takmörkun skipaumferðar og núverandi eða hugsanlegrar námuvinnslu svo ég nefni eitthvað fleira.

Hér á Íslandi höfum við stórt verndarsvæði sem heitir Breiðafjörður. Það er kominn tími til að fara að greina fleiri hugsanleg svæði sem gætu hentað til friðunar. Ég nefni frekari eða fleiri kóralsvæði. Það eru til nokkur slík svæði undan suðurströndinni sem eru friðuð og það gæti verið hægt að fjölga þeim. Það eru háhitasvæði á plötuskilum, bæði á Reykjaneshrygg og Kolbeinseyjarhrygg, og það eru kalkþörungasvæði inni á íslenskum fjörðum þar sem nú þegar er hafin námuvinnsla. Þetta er gríðarlega hægvaxta tegund sem þolir ekki mikið rask á ákveðnum svæðum og það þarf að líta til þess og fleira.

Ábyrgð okkar er í raun og veru nokkuð mikil í þessu, herra forseti, þ.e. að finna þetta jafnvægi náttúrunytja og náttúruverndar, því að hafið er sannarlega uppspretta gríðarlegra auðæfa og að sjálfsögðu matar líka. Það eru ýmiss konar alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland er aðili að og það er þetta stóra markmið að við horfum til sjálfbærni á heimsvísu.

Spurningar mínar til hæstv. ráðherra eru þessar: Hver er afstaða ráðherra til að undirbúa friðun fleiri hafsvæði á Íslandi?

Hvernig geta friðunaraðgerðir tengst alþjóðlegu átaki í þessum efnum?

Er unnt að friða hafsvæði en leyfa þar veiðar eða aðra nýtingu með sérstökum hætti?